Sr. Þórhallur Heimisson skrifar um væntanlega ferð til á slóðir Normandí innrásarinnar.
Þann 6. júní á komandi vori eru liðin 80 ár frá því er Innrásin í Normandí hófst, sem markaði upphafið að endalokum Síðari heimsstyrjaldarinnar.
Af því tilefni mun ég halda til Normandí sem leiðsögumaður á slóðir innrásarinnar í í ágúst næstkomandi. Á 60 ára afmæli innrásarinnar stóð ég fyrir samskonar ferð, reyndar árið 2005, og gaf auk þess út bókina Ragnarök, sem meðal annars sagði frá þessum mikla hildarleik. Líkt og þá verður nú flogið til London en þaðan er ekið til Portsmouth þar sem var ein stærsta flotastöð innrásarflotans sem í júní 1944 hélt yfir Ermasundið. Á leið til Portsmouth er komið við í British War Museum í London. Í Portsmouth er að finna safn breska flotans, Royal Navy Museum, þar sem skoða má herskip af öllum stærðum og gerðum frá ýmsum tímum. Þar liggur meðal annars HMS.Victory Nelsons flotaforingja.
Að því búnu er siglt yfir Ermasundið til Cherbourgh á Normandískaganum sömu leið og innrásarherinn fór árið 1944. Þar verður farið um borð í kafbát franska hersins en síðan ekið sem leið liggur til Bayeux. Bayeux verður einskonar birgðastöð ferðalanga á meðan á dvölinni stendur. Á leiðinni til Bayeux er komið við á Utah strönd þar sem breski herinn gekk á land á D – degi, 6. júní 1944. Dagarnir verða síðan helgaðir innrásarströndunum. Byrjað verður á því að skoða landgöngu bandaríska hersins á Omaha strönd, farið að Point du Hoc þar sem hægt er að fara inn í virki Þjóðverja og að bandaríska herkirkjugarðinum. Mesta mannfall 6. júní 1944 var einmitt á þessum tveimur stöðum. Einnig komum við til Arromanches í hringkvikmyndahúsi þar sem ferðalangar fá að upplifa innrásina í nærmynd. Eftir að hafa sótt heim innrásarstrandirnar er ætlunin að taka hlé frá Síðari heimsstyrjöldinni enda margt að skoða í Normandí. Þá verður ekið að Mont Saint-Michel sem er einstakur staður, eyja, klaustur og kastali sem rísa eins og turn úr Lord of the rings í miðju flæðihafi. Virkið var grundvallað árið 709 og mátti oft þola umsátur og átök. Lengst var barist um kastalann í Hundrað ára stríðinu svokallaða á 14. öld, en þá stóðst hann umsátur í 30 ár. Í frönsku byltingunni var kastalinn og klaustrið gert að fangelsi. Eyjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Líka dag okkar í Normandí byrjum við með því að skoða Beyeux refilinn í Beyeux Tapestry Museum, en hann lýsir innrás Vilhjálms Bastarðs/Sigurvegara á Englandi 1066. Þaðan er síðan ekið til Parísar. Síðustu daga ferðarinnar helgum við París og heimsækjum þar meðal annars Les Invaldises og komum að gröf Napóleons Bónaparte og í safn franska hersins.
Þegar farið var á þessar slóðir á 60 ára afmæli innrásarinnar myndaðist mikil stemmning í hópnum, enda stríðsmynjar ótrúlega vel varðveittar og magnað að koma á þessar örlagaríku slóðir og hófum við ferðalangar mörg haldið kunningskap síðar. Væntanlega verður einnig svo nú á 80 ára afmæli innrásarinnar í Normandí.