
Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Nepal og Bútan.
Nepal er þak heimsins og teygir sig til himins á milli Kína og Indlands. Hér er að finna Everest og sjö aðra af hæstu fjallstindum jarðarinnar.
Enda sækir landið heim fjallgöngufólk frá öllum heiminum. Himalajafjallgarðurinn teygir sig eftir endilöngum norðurhluta Nepal. Fegurð og margbreytileiki náttúrunnar er óvíða meiri en meðal snæviþakinna tindanna. Um leið er maðurinn lítill þar andspænis hrikaleika jöklanna. Nepal er ekki bara fjöll og snjór og stórfenglegri tindar. Í suðri taka við grónar sléttur þar sem er að finna hrísgrjónaakra, mangotré og þéttvaxinn frumskóg. Í dalverpunum er hitabeltisloftslag. Frá sléttunni og á leið upp á hæstu tinda verða á vegi ferðalangs krókodílar, musteri, snjóhlébarðar og kartöfluakrar. Hæðarmismunurinn frá lægsta punkti landsins og upp á tindana er ótrúlegir 8700 metrar. Og samt er landið aðeins um 120 kílómetra breitt.
Margbreytileiki náttúrunnar endurspeglast í fjölbreytileika mannlífsins. Í Nepal eru talaðar meira en 40 þjóðtungur. 85% Nepala eru hindúar. Í fjallabyggðum fylgja margir búddismanum í öllum sínu myndum og syðst á sléttunum er að finna múslíma. Íbúar landsins eru um 30.000.000 en 90 % þeirra búa á landsbyggðinni. Flestir búa við frumstæðar aðstæður og rækta hrísgrjón sér til matar. Eins og fólk hefur alltaf gert í Nepal. Norðan Himalajafjallanna er Kína næsti nágranni en í suðri Indland. Nepal hefur í aldanna rás tekist að halda friðinn við þessa voldugu nágranna sína. Og um leið hafa bæði þessi heimsveldi sett mark sitt á menningu Nepal.
Austur af Nepal er að finna Konungsríkið Bútan. Bútan er afskekkt og einangrað land sem hvílir í faðmi Himalajafjalla eins og Nepal, með stórveldin Indlandi í suðri og Kína í norðri. Um aldaraðir var landið algjörlega einangrað en hefur á síðustu áratugum opnast fyrir utanaðkomandi áhrifum þó að það haldi fast í allar sínar fornu hefðir. Land þrumudrekans, eins og Bútan heitir á heimamálinu, hóf ekki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að hleypa útlendingum inn fyrir landamærin. Fáir fá tækifæri til þess að komast þangað þar sem aðeins um 30.000 manns er veitt heimsóknarleyfi árlega, en í ár mun ég koma þangað með hóp Íslendinga í þriðja sinn.
Konungsríkið gengur í erfðir og hefur Wangchuck-ættin ríkt þar frá 1907. Frá því í mars 2008 er þar þingbundið lýðræði með tveggja flokka ríkisstjórn. Í Bútan búa um 700.000 manns.

Bútan er land sem kemur sífellt á óvart. Þar eru hrísgrjónin rauð á lit og chillipipar er ekki aðeins notaður sem krydd heldur sem aðalhráefnið í mat. Í Bútan er búddisminn samofinn lífinu öllu og klaustrin jafn sjálfsagður hluti af lífinu og kjörbúðirnar í úthverfum Reykjavíkur. Eitt er þó öðruvísi og látið ykkur ekki bregða – risastórar reðurmyndir eru málaðar við útidyr margra heimila – sem verndar- og frjósemistákn.
Þó að íbúarnir leggir mikla rækt við trú sína og það skíni alls staðar í gegn ber ekki að líta á Bútan sem lokað samfélag. Heimamenn eru vel að sér, vingjarnlegir, lífsglaðir og einstaklega gestrisnir.
Það er svo margt sem gerir það þess virði að leggja á sig ferðalag til Bútan. Í fyrsta lagi er það landslagið, þar sem snævi þaktir tindar Himalajafjallanna gnæfa yfir dimmum skógi vöxnum dölum og gljúfrum. En landslagið er oftar en ekki aðeins bakgrunnur fyrir stórfengleg musteri og klausturbyggingar sem taka að sér aðalhlutverkið. Hér er búddisminn samofinn öllu, byggingarlistinni, danshátíðunum og lífinu sjálfu. Ekki má gleyma vefnaðarlistinni, handverkinu, svakalegum bogfimikeppnum, háfjallagönguleiðum og undursamlegu dýralífi og gróði.
Aðeins er hægt að fljúga til Bútan með bútanska flugfélaginu Druk air, Drekafluginu. Flogið er til Paro í Bútan. Þegar flogið er frá Nepal er frábært útsýni yfir Everest og önnur hrikaleg fjöll Himalaja.
Frá flugvellinum í Paro er haldið til höfuðborgarinnar Timfú sem liggur í 2.300 metra hæð en þaðan liggur leiðin yfir Dochu-la-skarð sem liggur í 3.200 metra hæð, til bæjarins Punakha í miðju landsins. Þegar ég kom þarna fyrst 2016 voru allir vegir malarvegir, en nú er stærsti hluti vegakerfisins sem tengir saman dalina malbikaður. Dochu-la-skarðið er skreytt bænafánum og stúpum sem eru helgistaðir búddista. Í Punakah er fljótið Mo Chhu, eða Móðuráin, sem er beljandi jökulfljót en segja má að öll fljót Bútan séu bæði runnin undan jöklum og beljandi.
Einn þekktasti staður Bútan er án efa Tígrishreiðrið sem er klasi búddamustera í 3.200 metra hæð nærri Paró, í grunninn frá 8. öld. Klaustrin hanga utan í klettinum og til að komast að þeim er gengið hrikalegt einstigi. Í Tígrishreiðrinu kemur vel í ljós samband búddisma og náttúrutrúar en byggingarnar eru engu líkar. Gangan er ekki auðveld upp að Tígrishreiðrinu enda loftið þynnra en við erum vön, en hægt er að komast á hestum hálfa leið upp fjallið.
Bútan er eitt hrikalegasta fjallaland heimsins. Sjálfir segja Bútanir að til að finna landamæri Bútans og Indland kasti Bútanir steini niður fjallshlíðina. Þegar steinninn hættir að rúlla er komið að landamærum Indlands.