Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Róm.

Allar leiðir liggja til Rómar, segir málshátturinn og það er ekki fjarri lagi. Undanfarin 2700 ár hefur Róm verið áhrifavaldur í sögunni og mótandi í stjórnmálum, trúmálum, listum og hverskonar menningu. Að ekki sé minnst á tískuna. Þess vegna er hún líka kölluð borgin eilífa. 

Til Rómar liggja leiðirnar bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu því áhrif borgarinnar eru ekki nærri alltaf augljós en koma upp á yfirborðið víða þegar betur er að gáð. Um leið er Róm lifandi og yndisleg borg og sá sem einu sinni hefur orðið ástfanginn af henni á ekki auðvelt með að gleyma þeirri ást, hún fylgir honum alla tíð eins og draumur. Á fyrri öldum voru þeir sem höfðu komið til Rómar gjarnan kallaðir Rómarfarar og þótti það mikil heiðursnafnbót. Þegar gengið er um miðborg Rómar koma sérkenni borgarinnar fljótt í ljós. Miðborgin innan fornu borgarmúranna sem enn standa að hluta til er ótrúlega lítil. Breiðstræti eru fá en torgin þess fleiri og litlar götur og krókóttar mynda gatnakerfi sem er hreint völundarhús fyrir þá sem ekki þekkja til.

Rome
Péturskirkjan

Þannig hefur borgin haldið sér frá fornu fari og það er erfitt að ryðja nýjum breiðstrætum braut því undir yfirborðinu leynast alls staðar ómetanlegar fornminjar. Þess áhrifameira er að koma út úr þröngum smágötunum og inn á torgin þar sem hvert listaverkið öðru stórkostlegra setur svip sinn á umhverfið. Á röltinu um miðborgina rekst ferðalangur á Trevi gosbrunninn, Feneyjartorgið þar sem Mussólíni þrumaði yfir fasistum sínum um miðja öldina, Panþeon, Jesúkirkju Jesúíta með sínum ómetanlegur freskum, spænsku tröppurnar og spænska torgið þar sem rómantíkin blómstrar, og margt, margt fleira. Byggingar og minnismerki Rómar eru hvert öðru áhrifameira. Panþeon er til dæmis kirkja sem upphaflega var heiðið hof allra guða en “Panþeon” þýðir einmitt allra Guða. Húsið var byggt á fyrstu öld fyrir Krist og þykir enn jafn stórkostlegt verkfræðiafrek og það var þá. Talið er að allra heilagra og allra sálna messa hafi fyrst verið sungin þar. Þar er að finna elstu bronshurð sögunnar, 2000 ára gamla. Ekki eru torgin í Róm minna spennandi. Mörg þeirra eru byggð á grunni fornra rómverskra torga eða kappreiðavalla og sér ferðalangur gömlu útlínurnar gægjast fram af byggingunum sem standa í kring. En torgin eru líka hrífandi og litríkur heimur þar sem sölumenn falbjóða hverskonar vöru á meðan Rómverjar fá sér espresso eða cappuccino á kaffihúsunum eða skola pasta og pítsum niður með dýrum veigum. Sagt er að fáir kunni þá list betur en Ítalir að njóta kaffihúsasetu.

Rome
Minnisvarði um Victor Emmanuel II

Róm hýsir líka eitt minnsta ríki heims. Vatíkanið eða Páfaríkið, stendur á bökkum Tíberfljótsins í miðri Rómarborg. Þrátt fyrir smæð sína er Vatíkanið andlegur höfuðstaður kaþólsku kirkjunnar. Páfinn er yfirmaður Vatíkansins eins og kaþólsku kirkjunnar og frá fornu fari ber hann titilinn Pontifex Maximus sem er latína og þýðir hinn æðsti brúarsmiður. Í hugum kaþólskra er hann andlegur brúarsmiður sem byggir brú milli Guðs og manna.

Rome
Frans páfi

Vatíkanið samanstendur af Péturskirkjunni og höll páfa, auk safna, stjórnbygginga, garða og íbúðarhúsa þar í kring að ógleymdu Péturstorginu fræga sem listamaðurinn og arkitektinn Bernini hannaði. Péturskirkjan er ein þekktasta kirkja kristninnar. Í Vatíkan safninu er að finna Sixtínsku kapelluna, sem er einkakapella páfa og hefur að geyma hinar frægu freskur Michelangelos af sköpun heimsins og dómsdegi. Sagt er að ef þú stæðir í eina mínútu við hvern hlut í safninu myndi það taka þig 12 ár að skoða safnið allt. Fátt jafnast þó á við áhrifin af því að standa á Péturstorgi fyrir framan Péturskirkjuna. Þar eru þúsundir samankomnar frá öllum heiminum, pílagrímar á leið að gröf Jóhannesar Páls páfa, forvitnir túristar, prestar og nunnur og munkar, að ógleymdum leigubílunum, svissnesku varðmönnunum, leiðsögumönnunum sem tala hver í kapp við annan, börnum, hestum og margskonar listamönnum. Péturskirkjan er reist á þeim stað þar sem talið er að Pétur postuli hafi verið jarðsettur, en hann lét að öllum líkindum lífið í ofsóknum sem Neró keisari í Róm stóð fyrir gegn kristnum mönnum þar í borg árið 67. Óteljandi listamenn komu að gerð kirkjunnar en þar bera Bramante, Rafael, Michelangelo og Bernini höfuð og herðar yfir aðra. Sjálft Péturstorgið fyrir framan kirkjuna með súlnaröðunum og hinum egypska obelix frá því fyrir fæðingu Krists, á að tákna faðm kirkjunnar sem nær yfir borgina og allan heiminn, Urbi et Orbi, heim og borg eins og það heitir á latínu.

Rome
Torgið fyrir framan Péturskirkjuna í Páfagarði

Samkvæmt fornri hefð var Róm grundvölluð árið 732 fyrir Krist af bræðrunum Rómulusi og Remusi. Þeir eru ef til vill einna þekktastir fyrir að hafa alist upp á kraftmikilli mjólk úlfynju sem gekk þeim í móðurstað. Borgin var upphaflega reist á sjö hæðum og merkust þeirra er Kapítólhæðin við torgið mikla, Forum Romanum. Önnur mikil hæð stendur við torgið, Paletinusarhæðin, þar sem keisararnir byggðu risavaxna keisarahöllina. Rómaveldi stóð í ein 2700 ár, ef talið er með austrómverska ríkið sem fyrst féll árið 1453 þegar Tyrkir tóku Konstantínópel við Bosporussund og breyttu henni í Istanbúl. Forfeður okkar dáðust að þessari borg, kölluðu hana Miklagarð og réðu sig í þjónustu keisara hennar sem Væringjar, eða málaliðar. Á Forum Romanum eða Rómartorgunum má finna andardrátt þessarar miklu sögu. Þar er musteri Júlíusar Sesars sem reist var til að minnast þess er hann var stunginn til bana árið 44 fyrir Krist. Enn leggja menn blómsveig á staðinn í virðingarskyni við hann. 

Rome

Við torgið er einnig musteri Antóníusar, Rómulusar, Satúrnusar og fleiri guða og goðlegra manna, en áhrifamestur eru sigurbogarnir sem reistir voru í minningu sigra herstjóra og keisara Rómverja. Þeirra merkilegastur er án efa sigurbogi Títiusar þar sem sagt er frá því þegar Rómverjar eyddu Jerúsalem árið 70 eftir Krist. Það var Domitian keisari sem lét reisa hann í minningu föður síns Vespasíanusar sem sigraði Jerúsalem ásamt Títusi syni sínum. Á sigurboganum er lágmynd af herfanginu sem borið var út úr brennandi Jerúsalems musterinu. Þar má sjá sjö arma ljósastjakann sem stóð í musterinu og var úr skíra gulli. Ef þessi mynd væri ekki til staðar myndi enginn vita hvernig hann leit út. En þarna er ljóslifandi samtímaheimild komin, 1930 ára gömul. Ekki er áhrifaminni höll keisaranna á Paletínhæðinni eða útsýnið þaðan yfir Cirkus Maximus, risavaxinn skeiðvöllinn fyrir framan hallarhverfið sem margir þekkja úr bókunum um Ástrík og ævintýri hans. Frá torgunum liggur vegurinn eftir Via Sacra, helgigötunni, niður að Kólóseum, hringleikahúsinu sem er eitt frægasta tákn Rómar. 

Kólóseum

Ég hef komið oft gegnum tíðina sem leiðsögumaður til Rómar með Íslendinga. Ógleymanlegasta ferðin var þegar ég fékk að heimsækja borg hinna dauðu undir Péturskirkjunni. Við sem fórum þar niður í undirdjúpin mættum á tilsettum tíma hjá svissnesku vörðunum við hlið Vatíkanshallargarðsins. Þaðan vorum við leidd að skrifstofu fornleifarannsóknarinnar sem á sér stað undir kirkjunni, þar sem leiðsögumaður tók við okkur og fór með okkur inn í kjallara Péturskirkjunnar. Hófst nú hin mesta ævintýraför. Í einfaldri röð gengum við niður stiga inn í göng sem liggja að fyrstu hæðinni undir kjallara kirkjunnar. Þaðan var síðan gengið æ dýpra niður í undirdjúpin undir Péturskirkjunni, úr einu hólfi í annað sem afmarkað var með skotheldum glerhurðum. Í hvert sinn sem gengið var á milli hólfa runnu glerhurðirnar til hliðar og höfðum við eina mínútu til að skjótast í gegn áður en þær lokuðust á ný. Þarna tók við ótrúlegur heimur.

Rome
Santa Maria í Ara Coeli

Fornleifafræðingar hafa opinberað heila borg grafhýsa frá fyrstu annarri og þriðju öld eftir Krist undir Péturskirkju. Þarna í undirdjúpunum gengum við um götur þessarar borgar og sáum hvernig fólk á fyrri tíð hafði útbúið grafir forfeðra sinna, meðal annars hafði það lagt tröppur upp á þök yfir grafhýsunum. Þangað fór fólk gjarnan á frídögum með mat og vín, naut hvíldar og drykkjar og hellti síðan víni niður í grafirnar svo hinir látnu gætu tekið þátt í samfélagi fjölskyldurnar. Mikil listaverk, lágmyndir og styttur prýða marga grafreitina. Sumir eru þó aðeins einfaldir legsteinar með minningarorðum um látna ástvini. Og listaverkin eru bæði frá kristnum tíma og tímanum fyrir kristni. Þar má sjá egypsku guðina Hórus, Ísis og Ósíris í bland við gríska og rómverska guði og kristna dýrlinga. Einn legsteinn fannst mér öðrum hjartnæmari og sýnir hann hversu lítið við mennirnir höfum breyst í gegnum aldirnar og hversu vænt okkur þykir um ástvini okkar. Á steininn, sem var frá annari öld eftir Krist og einfaldur af allri gerð var ritað á latínu:

Treví gosbrunnurinn

„Hér hvílir Flavíus, hann lifði í 36 ár, þrjá mánuði og fjóra daga. Hann var hinn besti bróðir, alltaf spaugsamur og með bros á vör og hann deildi aldrei við nokkurn mann.“

Frá fornu fari hafa menn frá öllum áttum heimsins sótt þessa miklu borg Róm heim. En á slíkum ferðum skiptir auðvitað miklu máli að hafa réttan ferðafélaga með til að finna það sem maður leitar að. Um það segir forn keltneskur málsháttur :

„Að fara til Rómar er mikil fyrirhöfn en skilar litlum árangri ef sá sem þú leitar að býr ekki þegar í hjarta þínu.“

Og túlki það hver sem vill.

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.