Kolumbus Ævintýraferðir bjóða nú í annað sinn spennandi hópferð til Japan. Flogið verður með Finnair alla leið til Tokyo.
Þessi ævintýraferð er blanda af einstöku borgarlífi, aldagamalli menningu, trúarbrögðum, magnaðri náttúru og mun jafnframt gefa okkur innsýn í nútímalegan menningarheim sem hvergi á sinn líka. Við förum svo til allra ferða okkar með lestum og því æskilegt að þátttakendur séu góðir til gangs þó ekki sé um erfiði að ræða. Gisting á 4ra stjörnu hótelum.
Kolumbus Ævintýraferðir bjóða nú í annað sinn spennandi hópferð til Japan. Flogið verður með Finnair alla leið til Tokyo.
Þessi ævintýraferð er blanda af einstöku borgarlífi, aldagamalli menningu, trúarbrögðum, magnaðri náttúru og mun jafnframt gefa okkur innsýn í nútímalegan menningarheim sem hvergi á sinn líka. Við förum svo til allra ferða okkar með lestum og því æskilegt að þátttakendur séu góðir til gangs þó ekki sé um erfiði að ræða. Gisting á 4ra stjörnu hótelum.
Ferðatilhögun
Brottför frá Íslandi
Flogið með Finnair til Helsinki kl. 10:00 og lent þar kl. 15:30 að staðartíma. Frá Helsinki er flogið áfram með Finnair til Tokyo kl. 17:55 og lent þar kl. 14:25 að staðartíma daginn eftir. Flogið er með Airbus A350, sem eru næst stærstu breiðþoturnar frá Airbus og flugtíminn til Tokyo er rúmlega 13 klst.
Komið til Tokyo
Lent á Haneda-flugvelli í Tokyo (HND) kl. 13:50. Ekið á hótel miðsvæðis í Tokyo. Eftir innritun á hótel er dagurinn frjáls. Tilvalið að skoða sig um í grennd við hótelið, líta í verslanir og fá tilfinningu fyrir mannlífinu í þessari stórborg þar sem búa um 14 milljónir manna (37 milljónir manna á höfuðborgarsvæðinu öllu).
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Skoðunarferð um Tokyo
Brottför frá hóteli um kl. 10:00.
Við Skoðum Meiji-hofið, eitt af frægustu hofum Tokyoborgar, var reist árið 1920 til að varðveita í helgidómi anda Meiji keisara og Shoken keisaraynju, eiginkonu hans. Ólíkt öðrum erilsömum helgistöðum í Asíu er Meiji-hofið friðsæll og kyrrlátur tilbeiðslustaður, umlukið þéttum skógi með meira 120.000 trjám. Líkt og Central Park í New York er Meiji-hofið og skógurinn umhverfis það eins og náttúruleg vin í steinsteyptri veröld allt um kring.
Við förum í Harajuku, borgarhlutann þar sem ótrúleg unglingastíska og menning ráða ríkjum. Hjarta Harajuku er án efa í Takeshita-stræti og hliðargötum út frá því. Meðfram götunum eru lífstíls, fata- og tískuverslanir, verslanir með notuð föt og fjölbreyttir veitingastaðir.
Við ljúkum þessari ferð með því að heimsækja vinsælasta verslunar- og afþreyingarhverfið í Tokyo, Shibuya. Hér gefst tækifæri til að fara yfir heimsfrægt göngubrautatorgið í Shibuya. Fullyrt er að á grænu ljósi á hinu heimsfræga Scramble Crossing sem eru fjölmennustu gatnamót í heimi, streymi allt að 2.500 manns eftir gangbrautunum á hverjum tíma.
Sameiginlegur kvöldverður.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður og kvöldverður.
Dagsferð með rútu að Fuji-fjalli
Brottför frá hóteli um kl. 09:00.
Fuji-fjall og Kawaguchi-vatn eru um 140 km í suðvestur af Toyko. Fyrsti áfangastaður okkar er við hið undurfagra Kawaguchi-vatn, annað stærsta af Fuji-vötnunum fimm. Hér njótum við þess ekki aðeins að horfa til Fuji-fjalls af norðurströnd vatnsins og upplifa japanska náttúru í allri sinni dýrð heldur gefst nægur tími til að rölta meðfram vatnsbakkanum, eða bregða sér í skemmtisiglingu út á mitt vatnið. Eftir viðdvöl hjá Oshino Hakkai uppsprettulindum heimsækjum við Saiko Iyashi-no-Sato, dæmigert japanskt sveitaþorp á strönd Saiko stöðuvatnsins. Hér fáum við vonandi að upplifa fegurð Kirsuberjatrjánna sem eiga að vera í blóma á þessum tíma.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Heilsdags skoðunarferð um Tokyo
Brottför frá hóteli um kl. 09:30.
Við byrjum ferðina á því að heimsækja eina af frægustu nútímabyggingunum í Tokyo, Himnatréð. Lokið var við að reisa Himnatréð í Tokyo árið 2012 og það er hæsta bygging í Japan. Við förum upp á fyrstu útsýnissvalir (350 m) og njótum þess að sjá yfir stórborgina og til Fuji-fjalls í 100 km fjarlægð. Næst skoðum við okkur um í gamla miðbænum í Tokyo, Asakusa og Ueno, göngum niður verslunargötuna frægu Nakamise að Asakusa Kannon musterinu (Sensoji-hofinu), elsta og fjölsóttasta búddhahofinu í Tokyo. Við ljúkum ferðinni í Ueno með gönguferð um Ueno-garð og kynnumst loks erli og umstangi á einum af frægustu mörkuðum í Tokyo, Ameya-Yokocho markaðnum.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Haldið til Kyoto
Brottför frá hóteli um kl. 10:00.
Við ökum með háhraðalest („shinkansen“) til Kyoto og leiðin liggur m.a. fram hjá Fuji-fjalli. Eftir að komið er til Kyoto förum við í hálfs dags ferð um borgina. Við höldum til Arashiyama sem að flestra dómi er annað áhugaverðasta svæðið í Kyoto. Helsta aðdráttaraflið á svæðinu er Bambus-skógurinn í Arashyiama. Þangað leggja flestir ferðamenn leið sína og ekki að ástæðulausu: Engu líkara en verið sé í öðrum heimi þegar staðið er inn á milli himinhárra bambusstilkanna. Við heimsækjum einnig Tenryuji-musterið. Þetta fornfræga musteri var reist árið 1339 og er talið mikilvægasta musterið í Arashiyama. Umhverfis musterið er yndisfagur japanskur garður, einn sá fegursti í Kyoto.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Dagsferð um Kyoto
Brottför frá hóteli um kl. 09:00.
Við skoðum fyrst Nijo-kastala. Þessi sögufrægi kastali var reistur árið 1603 og var aðsetur Tokugawa Ieyasu, fyrsta yfirhershöfðingja (shogun) Edo-tímabilsins (1603-1867). Byggingar kastalans þykja best varðveittu dæmin um húsagerðarlist kastala-halla á öldum lénsskipulags í Japan. Eftir hádegisverðarhlé í ys og þys Nishiki markaðarins göngum við eftir hinu myndræna Pontocho stræti til Gion (Geishu-hverfisins). Gion er hið víðkunna Geishu-hverfi í Kyoto. Hér má hverfa aftur í tímann og sjá fyrir sér hvernig umhorfs var í Kyoto fyrr á öldum. Ef heppnin er með gætum við komið auga á raunverulega geishu á gangi eftir einhverju strætinu. Frjáls tími í eftirmiðdaginn.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Dagferð með rútu til Nara
Brottför frá hóteli um kl. 09:00.
Þegar komið er til Nara röltum við um í Naragarðinum þar sem yfir 1000 villt dádýr taka á móti gestu, mis ágeng. Þarna skoðum við Todaiji musterið og Kasugahofið, staði sem eru báðir á menningarminjaskrá UNESCO. Todaiji musterið var reist að skipun Shomu keisara árið 752 og er talið eitt af merkustu búddhamusterum í Japan. Stóri Buddha-salurinn í musterinu var áður fyrr stærsta timburmannvirki í heimi; í salnum er geysistór 16 metra há bronsstytta af Buddha en í styttunni eru Meira en 400 tonn af bronsi og 130 kíló af gulli. Ekki langt frá Todaiji musterinu er Kasugahofið. Þetta sögufræga hof er merkasta og mikilsvægasta hofið í hinni fornu höfuðborg Nara. Hofið er víðfrægt fyrir fallegar luktir sem trúariðkendur hafa gefið til musterisins. Bronsluktir, svo hundruðum skiptir, hanga utan á byggingunum og meðfram göngustígum að musterinu eru fjölmargar mosavaxnar steinluktir.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Himeji
Brottför frá hóteli kl. um 10:00 og ferðast með háhraðalest frá Kyoto til Himeji.
Eftir að komið er til Himeji heimsækjum við hinn stórfenglega Himeji-kastala sem talinn er besta dæmið um hefðbundna japanska kastalabyggingu frá fyrri tíð. Kastalinn, sem gengur einnig undir nafninu „Kastali hvíta hegrans“, er einn af tólf upprunalegu köstulunum í Japan og þykir glæsilegastur þeirra allra. Við hliðina á kastalanum er næsti áfangastaður okkar, yndislegi japanski garðurinn Kokoen. Garðurinn er í reynd níu aðskildir garðar, hannaðir eftir mismunandi stílbrigðum frá Edotímabilinu.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Hiroshima
Brottför frá hóteli um kl. 09:30 og ferðast með háhraðalest frá Himeji til Hiroshima.
Eftir að komið er til Hiroshima heimsækjum við hið áhrifamikla Friðarminningarsafn, Friðarminnigargarðinn, Atómsprengjuhvelfinguna og staðinn sem var beint fyrir neðan kjarnorkusprengjuna þegar hún sprakk í 600 m hæð. Hér sjáum við með eigin augum afleiðingar kjarnorkusprengjunnar sem varpað var á Hiroshima 6. ágúst árið 1945.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Dagsferð til Miyajima-eyjar
Dagsferð til Miyajima-eyjar. Brottför frá hóteli um kl. 09:00.
Þegar komið er til Miyajima-eyjar skoðum við fyrst hið heimsfræga Itsukushima-hof. Þetta stórfenglega hof er þekktast fyrir hið „fljótandi hlið“ að hofinu (jap. torii) sem virðist fljóta á öldunum á flóði. Næst heimsækjum við Daisho-in musterið, fallegt búddhamusteri, eitt af höfuðmusterum Shingon-búddhadóms. Musterið stendur við rætur Misenfjalls og þar má skoða margar sögulegar byggingar, styttur og önnur trúarleg verk.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Osaka
Brottför frá hóteli kl. um 10:00 og ekið með háhraðalest til Osaka.
Eftir að við komum til Osaka verjum við síðdeginu í að rölta um Namba og Shinsaibashi hverfið sem iðar af mannlífi, verslunum og veitingastöðum.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Dagsferð um Osaka
Brottför frá hóteli um kl. um 10:00 í hálfsdagsferð um Osaka.
Við förum í Kaiyukan sjávardýrasafnið í Osaka, stærsta sjávardýrasafn í heimi. Þetta gríðarmikla sjávadýrasafn er eitt helsta aðdráttaraflið í Osaka og þar má sjá búsvæði sjávardýra í Kyrrahafi í risastórum vatnsgeymum. Safnið er þekktast fyrir hvalháfa, sem eru þar til sýnis, en þar má einnig sjá önnur heillandi sjávardýr, t.d. hringanóra og marglyttur. Síðdegið er frjálst en hittumst um kvöldið í sameiginlegum kveðjukvöldverði.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og kvöldverður.
Heimför
Útritun af hóteli kl.11:00.
Frjáls dagur í Osaka og tilvalið að skoða eitthvað fleira í borginni eða kíkja í verslanir.
Haldið út á Kansai-flugvöll (KIX) þaðan sem flogið verður til Helsinki kl. 22:25 og lent þar kl. 05.30 að morgni 5. apríl. Haldið áfram með flugi kl. 07:15 og
lent í Keflavík kl. 08:00 á staðartíma.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Fararstjóri, verð, greiðslur og innifalið
Goði Sveinsson er fararstjóri í þessari ferð, hann hefur langa reynslu af ferðaþjónustu eftir starf sitt m.a. sem sölu- og markaðsstjóri Úrval/Útsýn og fleiri ferðaskrifstofa um langt árabil. Goði hefur farið víða með hópa á vegum Kolumbus ævintýraferða og þar á meðal til Japans.
Verð á mann: 1.050.000 kr. Aukagjald fyrir eins manns herbergi er 95.000 kr.
Geiða þarf 100.000 kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka.
Eftirstöðvar verða innheimtar allt að 60 dögum fyrir brottför og þá er hægt að velja á milli greiðslu með peningum eða kreditkorti.
Að öðru leyti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko travel group sem nálgast má á heimasíðu ferðaskrifstofunnar.
• Flug fram og til baka til Japan auk flugvallaskatta
• Gisting og morgunverður á völdum gæðahótelum samkvæmt ferðatilhögun
• Tveir kvöldverðir
• Allar ferðir innan Japan, þ.m.t. með háhraðalestinni („Shinkansen“)
• Allur aðgangur að söfnum og ferðamannastöðum
• Íslensk fararstjórn
• Staðarleiðsögumaður í Japan
Bóka
2 sæti laus!
Eingöngu er hægt að bóka 2ja manna herbergi þar sem einstaklingsherbergi eru uppseld. Hægt er að skrá sig á biðlista fyrir einstaklingsherbergi með því að hafa samband við okkur á niko@niko.is
Þegar þú hefur staðfest bókun verður
stofnaður greiðsluseðill í heimabanka fyrir staðfestingargreiðslu.
UPPSELT – BIÐLISTI
Uppselt er í þessa ferð. Hægt er að skrá sig á biðlista með því að hafa samband við okkur á niko@niko.is.
Nánari upplýsingar
Allar nánari upplýsingar eru veittar í síma
499-2960 eða á netfanginu niko@niko.is.