Víetnam er stórkostlegt land heim að sækja. – Einstakt tækifæri!
Við heimsækjum Hanoi í norðri, siglum á hinum stórkostlega Halong flóa, heimsækjum Hue og Hoi An í mið-Víetnam, Saigon í suðri, siglum á Mekongfljóti og endum ferðina á einni af fegurstu ströndum landsins í Mui Ne. Öll gisting er á gæðahótelum.
Víetnam er mjög áhugavert land heim að sækja. Það á sér langa, merka og átakamikla sögu og varð vettvangur örlagaríkra atburða og heimsfrétta í svonefndu Víetnamstríði – með þátttöku Bandaríkjamanna – á 7. áratug síðustu aldar. Kólumbus – Ævintýraferðir bjóða í þriðja sinn stórkostlega ferð til þessa merka lands þar sem við heimsækjum stórborgirnar Hanoi í norðri, siglum á hinum stórkostlega Halong flóa, heimsækjum Hue og Hoi An í mið-Víetnam, Saigon í suðri, siglum á Mekongfljóti og endum ferðina á einni af fegurstu ströndum landsins í Mui Ne. Flug í gegnum Dubai með Emirates og þaðan til Hanoi. Til baka frá Saigon með einnar nætur stoppi í Kaupmannahöfn þar sem gist verður á 25hours Hotel í miðborginni.
Ferðatilhögun
Brottför frá Íslandi
Flogið er með Icelandair FI318 til Osló kl. 07:50 og lent kl. 11:35. Áfram er haldið með flugfélaginu Emirates áleiðis til Dubai kl. 14:00 þar sem lent verður kl. 23:55 að staðartíma. Dvalið verður á flugvellinum í Dubai í 3:45 klst. og flogið áleiðis til Víetnam kl. 03:40. Lent er í Hanoi kl. 12:40 að staðartíma daginn eftir.
Komið til Hanoi
Xin chao! Velkomin til Hanoi. Staðarleiðsögumaður tekur á móti hópnum á Noi Bai alþjóðaflugvellinum og síðan er ekið með rútu á Silk Path Luxury Hanoi Hotel þar sem gist verður fyrstu tvær næturnar í Víetnam. Tími til að hvílast það sem eftir lifir dags eftir langt og strangt flug frá Íslandi. Kvöldverður á veitingastað í miðborginni.
Upplifun í Hanoi
Lagt af stað með rútu kl. 10:00.
Við byrjum morguninn á að setjast upp í rafknúna bíla og bregðum okkur í ökuferð um litrík og erilsöm stræti gamla borgarhlutans í Hanoi. Andið að ykkur gjörólíkum blæbrigðum á mannlífi í borginni og njótið hennar með opnum huga. Heimsækja Bókmenntahofið, helgað Konfúsíusi, umfangsmikið svæði þar sem einstök byggingarlist allt frá 11. öld og menningararfleifð Víetnama njóta sín til fullnustu. Eftir hádegisverð förum við að hinu mikilfenglega grafhýsi Ho Chi Minh og röltum um blómskrýdda garðana við Forsetahöllina þar sem má sjá m.a. Pagóðuna á einni súlu og stólpahús Ho Chi Minh. Höldum síðan aftur inní gamla bæjarhlutannn og förum á einn af flottustu börum (Roof-top bar) borgarinnar þar sem við fáum okkur kokteila (innifalið) og horfum á sólarlagið með útsýni yfir elstu borgarhverfin og tvö af helstu stöðuvötnunum í borginni. Snæðum síðan gómsætan víetnamskan kvöldverð.
Hanoi – Ninh Binh
Við förum frá hótelinu kl. 09:00 að morgni og ökum í suðaustur um Ninh Binh héraðið sem oft er nefnt „Halong flói á þurru landi“. Við snæðum hádegisverð á skemmtilegum stað hjá fjölskyldu með sveitagistingu og njótum frábærrar gestrisni eigenda. Síðdegis förum við í ævintýralega siglingu með Sampan-bátum um hrífandi landsvæði Tam Coc, dalsins sem er þekktur fyrir himingnæfandi kalksteinsfjöll og fallegar hrísgrjónaekrur. Við heimsækjum Bich Dong pagóðuna sem er á þremur hæðum utan í klettahlíð. Gist er á Hidden Charm Hotel & Resort í Tam Coc. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.
Ninh Binh – Halongflói
Lagt af stað frá hóteli kl. 08:00
Í dag ökum við yfir óseyrar Rauðafljóts og komum niður á strönd rétt fyrir hádegi. Við förum um borð í fallegt skip, þar sem við eigum framundan sólarhringssiglingu um Halongflóa, hafsvæði sem þykir einstakt fyrir náttúrufegurð. Við erum ferjuð á minni bát yfir í okkar skip og strax og lagt verður frá landi snæðum við ljúffengan hádegisverð með kalksteinskletta sem skraut við matborðið. Síðdegis heimsækjum við Sung Sot hellinn fræga, einstaka og stórbrotna náttúrusmíð úr kalksteini sem geymir einnig æfafornar mannvistarleifar, en þetta er vafalaust hápunktur siglingarinnar fyrir flesta. Í framhaldi er planið að heimsækja litla eyju, Titov Island þar sem hægt er að fara á strönd, synda og slaka á. Dagskrá getur breyst eftir veðri og vindum. Við ljúkum deginum með því að njóta sólarlagsins af þilfarinu. Gestum er boðið uppá ”Happy Hour” og stutt matreiðslunámskeið fyrir kvöldverð. Gist um nóttina í notalegum sérklefa með baðherbergi á Athena Royal Cruises.
Athugið: Siglingaleið og -áætlun geta breyst vegna veðurs, sjávarfalla eða annarra aðstæðna á hafinu. Ef veður er slæmt er ekki heimilt að synda í sjónum eða stunda kajakaróður.
Halongflói – Hanoi – Flogið til Hue
Einhver eftirminnilegasta upplifun ferðamanna í Víetnam er að fylgjast með sólarupprás yfir Halongflóa. Farið á fætur um sexleytið og förum í Tai Chi leikfimi til að liðka okkur og njóta þessarar hrífandi og friðsælu stundar. Morgunhressing og síðan boðið uppá heimsókn í Luon hellinn, stutta bátsferð eða róum á kayak. Við snæðum morgunverð um borð og leggjum að höfn rétt fyrir hádegi. Þegar við komum í land heimsækjum við stóran perluframleiðanda og fáum að kynnast aðferðum þeirra við framleiðsluna. Ekið til flugvallarins í Hanoi þaðan sem við fljúgum til Hue, litríkrar menningarborgar í Mið-Víetnam. Nýr staðarleiðsögumaður tekur á móti hópnum á flugvellinum og ekið á hótel. Gist er í 2 nætur á Senna Hue Hotel.
Kvöldverður á hótelinu.
Skoðunarferð um Hue
Við leggjum af stað frá hótelinu kl. 09:00.
Við heimsækjum fornu Keisaraborgina í Hue, rústir af gríðarmiklu borgarvirki. Hér má sjá hvernig eyðingarmáttur tímans og heiftarleg stríðsátök hafa leikið það sem áður var listilega hönnuð höfuðborg Víetnam og Nguyen-keisaraættarinnar. Við heyrum mergjaðar og oft ótrúlegar sögur af lífsstíl keisaranna og skoðum einnig grafhýsi Tu Duc keisara (1829-1883). Að því búnu snæðum við hádegisverð á veitingastað í grenndinni. Við förum í heimsókn í Thuy Bieu, friðsælt og sjarmerandi sveitaþorp þar sem tíminn líður aðeins hægar en við eigum að venjast. Komum aftur á hótelið síðdegis þar sem tilvalið er að skella sér í nudd eða einhverja af þeim slökunar- og dekurmeðferðum sem í boði eru.
Kvöldverður í miðbænum.
Hue – Lang Co – Hoi An
Við leggjum af stað kl. 09:00 og ökum í suðurátt til gömlu hafnarborgarinnar Hoi An. Við nemum staðar við Dam Chuon lónið, en margir eiga hér leið um en fáir staldra við. Við höfum annan háttinn á og bregðum okkur í stutta bátsferð um lónið í fylgd fiskimanna til að kynnast veiðiaðferðum þeirra. Hádegismatur er borinn fram í einfaldri byggingu á stólpum úti á lóninu, ljúffengt ferskt sjávarfang sem landað var þá um morguninn. Við höldum áfram á ferð okkar í suður og gerum stutt stopp við hinn fagra Lap An flóa þar upplagt er að bragða á Salty Coffee. Ökum síðan uppí Hai Van fjallaskarðið þaðan sem er stórfenglegt útsýni yfir hafið og gylltar strendurnar kringum Danang. Við ökum gegnum Danang borg og komum síðdegis til Cam Thanh á óshólmum Thu Bon fljóts, í útjaðri Hoi An, svæðis sem er þéttvaxið kókospálmaskógi. Við stökkvum um borð í bát á fljótinu og njótum sólarlagsins á siglingu okkar inn til miðborgarinnar þar sem kveikt er á luktum þegar dimmir og líf færist á fljótsbakkana. Gist er á Hadana Boutique Resort næstu 2 nætur.
Sameiginlegur kvöldverður á spennandi veitingastað.
Hoi An – frjáls dagur
Frjáls dagur sem má nota til þess að rölta um þessa fornu hafnarborg, versla, fara á ströndina, rölta milli kaffihús eða bregða sér í hjólatúr, en á hótelinu eru ókeypis reiðhjól til afnota fyrir gesti. Fyrir strandferð mælum við með An Bang ströndinni um 4 km í norður af Hoi An.
Hoi An er líka þekkt fyrir mikið úrval góðra klæðskera og því tilvalið að láta sauma eitthvað fallegt á sig ef svo ber undir. Kvöldið er frjálst.
Hoi An – Danang – Saigon (Ho Chi Minh City)
Eftir morgunverð ökum við til Danang flugvallar til að ná flugi til Saigon rétt fyrir hádegi. Við komu til Saigon hittum við þriðja staðarleiðsögumann okkar og förum beint í hádegisverð.
Skoðum síðan stríðsminjasafnið (The War Remnants Museum) og ökum um miðborgina og skoðum helstu kennileiti Ho Chi Minh-borgar.
Gist er á Equatorial Ho Chi Minth City næstu 2 nætur. Kvöldverður í miðborginni.
Saigon – óshólmar Mekong – Saigon
Við leggjum af stað kl. 08:00 út úr Saigon og komum að víðáttumiklum óseyrum Mekong-fljóts eftir u.þ.b.tveggja og hálfs tíma akstur. Við höldum okkur frá fjölsóttum ferðamannastöðum og stígum um borð í einkaferju á fljótinu og snæðum hádegisverð á meðan við líðum áfram eftir Mekong, þessu stórkostlega fljóti sem er lífsviðurværi yfir 90 milljóna manna í sex löndum. Hér gefst tækifæri til að hitta heimamenn, fræðast um handiðnir og eldamensku og njóta lita og ilms regnskógarins. Við komum síðdegis aftur til Saigon og njótum kvöldsins á fallegum veitingastað í miðborg Saigon.
Saigon – Mui Ne
Lagt af stað frá hóteli kl. 11:00
Um morguninn ökum við frá Saigon til Mui Ne í Binh Tuan héraði, sem er einn af fegurstu baðstrandabæjunum í Suður-Víetnam. Hótelið okkar er við ströndina og með fallegum garði og stórri sundlaug. Eftir innritun á hótelið er öllum frjálst að slaka á, hverjum eftir sínu höfði. Gist á Seahorse Resort & Spa, næstu 2 nætur. Kvöldið er frjálst.
Mui Ne – frjáls dagur
Njótið lífsins eins og ykkur best lystir. Farið í sólbað, gangið á ströndinni, takið sundsprett í frábærri sundlauginni, slakið á í hótelgarðinum, farið í golf, fáið lánað hjól á hótelinu, skellið ykkur í nudd og dekur eða takið sjódrekanámskeið (Kite surfing). Allt þetta er hægt að gera á staðnum. Kvöldið er frjálst en fararstjóri hóar hópnum saman ef áhugi er á sameiginlegum kvöldverði á spennandi veitingastað.
Mui Ne – Saigon – brottför
Síðdegis kveðjum við Mui Ne, þessa hitabeltisparadís, og ökum á alþjóðaflugvöllinn í Saigon þar sem innritun fer fram í flug Emirates með brottför kl. 23:55 til Dubai. Lent verður í Dubai kl. 04:25 aðfaranótt 1.des.
Dubai – Kaupmannahöfn
Brottför flugs Emirates frá Dubai til Kaupmannahafnar er kl. 08:30 og lent í Kaupmannahöfn kl. 12:30. Rúta bíður hópsins og ekur áleiðis á hið vel staðsetta 25hours Hotel þar sem gist verður í eina nótt.
Kaupmannahöfn – Keflavík
Rúta ekur hópnum kl. 10:30 á Kastrup-flugvöll þar sem innritun fer fram í flug Icelandair FI205 kl. 12:55. Lent í Keflavík kl. 15:25 að staðartíma. Þar með er komið að lokum þessarar ævintýraferðar til Víetnam.
Fararstjórn, verð, greiðslur og innifalið
Draupnir Rúnar Draupnisson
Norðfirðingurinn sem hefur ferðast til 134 landa. Hann býr að langri reynslu sem fararstjóri og hefur farið með fjölda hópa víðs vegar um heiminn. Hann er fjölmenntaður, m.a. sem kennari og leiðsögumaður.
Verð á mann: 649.000 kr. Aukagjald fyrir eins manns herbergi er 80.000 kr.
Geiða þarf 100.000 kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka.
Eftirstöðvar verða innheimtar allt að 70 dögum fyrir brottför, með greiðslutengli sem sendur er í tölvupósti.
Að öðru leyti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko travel group sem nálgast má á heimasíðu ferðaskrifstofunnar.
• Allar flugferðir, milli landa og innanlands í Víetnam skv. ferðatilhögun ásamt sköttum og gjöldum.
• Gisting í tveggja manna herbergi með morgunverði.
• Vegabréfsáritun.
• Tveggja manna klefi í 2 daga/1 nótt um borð í skemmtiferðaskipi á Halong flóa.
• Akstur í loftkældum rútum.
• Enskumælandi staðarleiðsögumenn.
• Bátsferðir skv. ferðatilhögun.
• Aðgangur að öllum stöðum sem heimsóttir verða skv. ferðatilhögun.
• Morgunverður: Innifalinn alla daga
• Hádegisverður: Innfalinn daga 2, 3, 4, 5, 6, 7, 9 og 10
• Kvöldverður: Innifalinn daga 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 9 og 10
• Tvær flöskur af vatni á mann á hverjum degi í öku- og skoðunarferðum með rútu.
• Allir skattar í Víetnam og þjónustugjöld.
• Íslensk fararstjórn.
Ekki innifalið:
• Þjórfé
Bóka
Uppselt – Biðlisti
Uppselt er í þessa ferð. Hægt er að skrá sig á biðlista með því að hafa samband við okkur á niko@niko.is.
4 sæti laus!
Við eigum eingöngu tveggja manna herbergi laust. Hægt er að skrá sig á biðlista fyrir einstaklingsherbergi með því að hafa samband við okkur á niko@niko.is.
Þegar þú hefur staðfest bókun mun starfsmaður okkar hafa samband við þig til þess að ganga frá staðfestingargreiðslu.
Nánari upplýsingar
Allar nánari upplýsingar eru veittar
í síma 499-2960 eða á netfanginu niko@niko.is.
Brottför
Umsagnir viðskiptavina okkar









