Sr. Þórhallur Heimisson skrifar um Santíago de Chile.

Það er sérstök tilfinning að koma fljúgandi yfir Andesfjöllin og sjá Santíagó borg, eða Santiago de Chile eins og hún heitir formlega, skyndilega birtast á sléttunni fyrir neðan fjöllin. Fjallgarðurinn er gríðarlegur, tindarnir teygja sig móti himninum snævi þaktir, og vélin siglir yfir þá og steypir sér svo niður á milli þeirra, niður að borginni.
Santíagó er höfuðborg Síle og suðupottur, blanda fornrar menningar Suður Ameríku og nútímans, fjallasýnar og sléttunnar, Evrópu, Suður Ameríku og Kyrrahafsins. Borgin kúrir við fætur Andesfjalla eins og áður segir og fegurð náttúrunnar fer ekki fram hjá neinum sem til borgarinnar kemur. Ekki fremur en mögnuð saga hennar og menningarstraumarnir sem um hana streyma.

Síle liggur með fram vestur strönd Suður Ameríku, eins og mjó ræma milli Andesfjallanna og Kyrrahafsins. Það hefur landamæri að Perú í norðri, Bólivíu í norð austri, og Argentínu í austri og suðri. Nokkrar eyjar í Kyrrahafinu tilheyra líka Síle, þar á meðal Páskaeyjan. Náttúra Síle er ákaflega fjölbreytileg, allt frá eyðimörkum í norðri og að Patagóníu og Eldlandinu, eða Tierra del Fuego í suðri. Þar er að finna suðlægustu borg í heimi Puerto Williams.

Það er magnað fyrir Íslending að koma þangað suður eftir í janúar eða febrúar. Þar hafa kríurnar okkar vetursetu og litur himinsins er hinn sami og himinbláminn á Íslandi á sumrin, enda hitastigið svipað og á íslensku sumri og hafið allt um kring.

Síle er ótrúlega langt land og mjótt. Þess vegna er náttúran líka svona fjölbreytileg. Ef við hugsum okkur að Síla væri í Evrópu, þá myndi það ná frá Moskvu til Madrídar. Höfuðborgin Santíagó væri einhverstaðar á svipuðum slóðum og Vínarborg. Svo að við áttum okkur nú aðeins betur á stærðinni.

Santíagó þýðir „Borg heilags Jakobs“ sem er verndardýrlingur Spánar. Borgin var stofnuð árið 1541 af spænska landvinningamanninum Pedro de Valdivia og hefur verið hjarta Síle allar götur síðan. Síle var upphaflega hluti af spænska nýlenduveldinu í Suður Ameríku, en hlaut sjálfstæði 1818. Saga borgarinnar og Síle, allt frá tímum frumbyggja og til dagsins í dag, endurspeglast í byggingarlist Santíagó. Þar má finna byggingar frá nýlendutímanum og einnig nýtískulega skýjakljúfa. Megin torgi borgarinnar, Plaza de Armas, geymir sögulegar byggingar eins og dómkirkju Santíagó og Þjóðminjasafnið. Dómkirkjan er að sjálfsögðu kaþólsk enda kaþólska kirkjan stærsta kirkjudeild Síle. En í Santíagó er líka að finna hæstu byggingu Suður Ameríku, Gran Torre Costanera, sem telur 62 hæðir.

Útsýnið frá efstu hæðinni er stórkostlegt yfir borgina og til fjallanna í kring, en útsýnishæðin er í 261 metra hæð. Turninn sjálfur nær 300 metrunum. Þarna á útsýnishæðinni er oft mikið um dýrðir og gaman að borða eða taka snúning á dansgólfinu sem þar er að finna, með fjöllin allt um kring. Fátt jafnast síðan á við að horfa á sólarlagið þarna hátt yfir borginni og sjá sólina síga niður bak við Andesfjöllin. Það er eins og kvikni bæði í fjallgarðinum og borginni þegar sólin kveður og myrkrið tekur við. Fyrir neðan turninn sést Mapocho fljótið sem rennur gegnum borgina og ekki langt frá honum er lystigarðurinn Parque Metropolitano þar sem næði gefst frá nið stórborgarinnar.

Saga Síle og Santíagó eru eitt. Það er dramatísk upplifun að koma að gömlu forsetahöllinni, Monedahöllinni eins og hún heitir, þar sem Salvador Allende forseti svipti sig lífi, eða var skotinn, þegar herinn tók völdin 11. September árið 1973 og herstjórn Augusto Pinochet tók völdin.

Herinn hélt völdunum til ársins 1990 þegar herforingjastjórnin var felld. Pinochet sjálfur stýrði sem yfirmaður hersins til 1998. Öll þessi sorglega saga rifjast upp við hallardyrnar í miðborginni. Í dag er Síle lýðræðisríki þar sem kjörinn forseti er bæði leiðtogi landsins og stjórnarinnar. Enn er verið að gera upp hörmungar herstjórnaráranna og afleiðingar þeirra.

Í Santíagó búa í dag um 7 milljónir en í öllu Síle um 20 milljónir. Borgin er þéttbýlasta svæði Síle og efnahagsleg og menningarleg miðstöð landsins.

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.