Suðurhluti Póllands er eitt fjölbreyttasta og mest heillandi svæði landsins, þar sem glæsilegir kastalar, sögurík borgarmenning og stórbrotin náttúra mynda ógleymanlega heild sem kemur sannarlega á óvart.

Kolumbus Ævintýraferðir bjóða nú í fyrsta sinn ferð til Suður-Póllands. Hinn dularfulli Książ-kastali, litskrúðugur gamli bær Wrocław, miðaldasöguprýdd Kraków og hinar einstöku neðanjarðar Wieliczka saltnámur ásamt heimsókn í Auschwitz-Birkenau, fyrrum fangabúðir sem nú eru á Heimsminjaskrá UNESCO mun skilja eftir fjölda ógleymanlegra minninga. Í Zakopane bíður síðan fjallasjarminn og einstakt útsýni af einum glæsilegasta útsýnisstað Póllands.
Flogið er í beinu flugi með Icelandair til og frá Prag og gist á sex 4ra og 5 stjörnu lúxus hótelum, þar af hafa hótelin í Wrocław, Kraków og Zakopane hlotið Michelin Key árið 2025.
Ferðatilhögun
Brottför frá Íslandi
Flogið í beinu flugi með Icelandair kl. 07:20 og lent í Prag um kl. 13:05. Tímamismunur er 2 klst. Rúta bíður hópsins ásamt staðarleiðsögumanni og ekið verður yfir landamæri Tékklands og Póllands, að Hotel Ibis Styles Wałbrzych. Komið er síðdegis til innritunar a hótelið. Eftir innritun er hægt að slaka á áður en snæddur verður kvöldverður á veitingastað hótelsins.
Máltíðir innifaldar: Kvöldverður
Leyndarmál Książ-kastala & Heillandi Wrocław
Eftir morgunverð og útritun af hótelinu leggjum við leið okkar að hinum goðsagnakennda Książ-kastala, í héraðinu Neðri-Silesíu. Książ-kastali telst eitt af glæsilegustu mannvirkjum Póllands og er þriðji stærsti kastalinn í landinu. Skrautlegir salir, stórfenglegar svalir og leynigöng segja sögur af kóngafólki, ráðabruggi og stríðsárum. Hér mætist sagan, goðsagnir og fegurð sem heillar hvern þann sem heimsækir. Hádegisverður á Restauracja Biblioteka (ekki innifalinn).
Að loknum hádegisverði höldum við til Wrocław, einnar líflegustu borgar Póllands. Innritun á Altus Palace Hotel sem hlaut Michelin viðurkenningu árið 2025 bæði fyrir hótelið og Wierzbowa 15 veitingastaðinn. Hótelið er í endur uppgerðri höll frá 19. öld við jaðar gamla bæjarins og sameinar sögulegan glæsileika og nútímalega fágun.
Kvöldið er frjálst.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Wrocław
Að loknum morgunverði hittum við staðarleiðsögumann sem fylgir hópnum í ógleymanlega klukkustundar borgarferð í vintage „Ogórek“ rútu frá 1970. Þetta er frábær leið til að kynnast borginni frá nýju sjónarhorni. Að ökuferðinni lokinni er farið í gönguferð um helstu kennileiti gamla bæjarins og Ostrów Tumski. Við stígum inn í hlutverk bæjarbúans sem var sakaður um nornagleði eða böðulsins sem rifjar upp fyrstu aftökurnar og færum þannig sögu borgarinnar til lífs með kímnigáfu, leyndardómum og sögulegum siðum.
Að gönguferðinni lokinni er farið í bjórsmökkun á elsta og frægasta veitingastað Wrocław. Bruggarinn segir frá bjórgerðinni og deilir sögunni á bak við hana. Frjáls tími fyrir hádegisverð á pólskum veitingastað og til að skoða borgarlist, verslanir og kaffihús.
Wrocław er oft kölluð „Feneyjar Póllands“ – borg eyja, brúa og litskrúðugra húsa. Líflega markaðstorgið og skemmtilegar dvergastyttur gefa borginni sérstakan sjarma. Hún sameinar sögu, listir og nútímalíf á einstakan hátt.
Kvöldið er frjálst til að njóta borgarinnar.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Auschwitz & Kraków
Eftir morgunverð liggur leiðin í Auschwitz-Birkenau, fyrrum útrýmingarbúðir nasista sem nú eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Auschwitz er einn merkilegasti minnisvarði í heimi. Heimsóknin er áhrifamikil, þar fá gestir innsýn í eitt myrkasta tímabil mannkynssögunnar. Svæðið stendur í dag sem minnisvarði um fórnarlömb helfararinnar og áminning um mikilvægi mannréttinda, umburðarlyndis og ábyrgðar í samtímanum. Farþegar þurfa að hafa vegabréf meðferðis.
Síðdegis heldur ferðin áfram til Kraków, fyrrum höfuðborgar landsins sem er jafnframt ein fegursta og söguríkasta borg Póllands. Gamli bærinn einkennist af fallegum torgum, kirkjum og sögulegum byggingum, ásamt líflegu menningarlífi, kaffihúsum og veitingastöðum. Borgin sameinar ríkulega sögu, listir og nútímalegt borgarlíf á einstakan hátt. Innritun á hótel Stradom House – Autograph Collection sem hlaut Michelin viðurkenningu árið 2025. Í byggingunni var áður klaustur frá 14. öld.
Kvöldið er frjálst.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Kraków & einkakvöld í Wawel-kastala
Eftir morgunverð fáum við leiðsögn um helstu menningarperlur Kraków: Gamla bæinn, aðaltorgið og Kazimierz – fyrrum gyðingahverfið. Tilvalið að fá sér hádegisverð á veitingastað í miðborginni.
Síðdegið býður upp á einstaka upplifun, einkaleiðsögn í Wawel-kastala eftir lokun. Hópurinn fær að kanna og upplifa, í algjörum friði, konungssali, íbúðir og gotneskar kapellur sem færa okkur nær konungasögu Póllands.
Kvöldið er frjálst.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Wieliczka og Zakopane
Eftir morgunverð er haldið til hinnar heimsþekktu Wieliczka saltnámu, einnar elstu saltvinnslu heims. Hópurinn fer 130 metra niður í jörðina og skoðar stórbrotna sali, kapellur og skúlptúra – allt úr salti. Hægt er að kaupa sér hádegisverð sem borinn er fram 130 metrum neðanjarðar. Heimsókn í Wieliczka er bæði fróðleg og ævintýraleg.
Síðdegis heldur ferðin áfram til Zakopane, „fjallahöfuðborgar“ Póllands. Innritun á Bachleda Residence Zakopane sem hlaut Michelin viðurkenningu árið 2025.
Kvöldið er frjálst.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Kasprowy Wierch & Tatrafjöllin
Að loknum morgunverði er lagt af stað í ferð með kláfi upp á Kasprowy Wierch, einn glæsilegasta útsýnisstað Tatrafjalla. Með kláf ferð upp á tindinn opnast stórbrotið landslag sem nær yfir fjallatinda, dali og landamæri Póllands og Slóvakíu. Hádegisverður eða kaffi á POZIOM 1959, fyrir þá sem vilja, á hæst liggjandi veitingastað landsins, umlukin stórbrotnu fjallalandslagi.
Síðdegis er frjáls tími í Zakopane. Göngutúr, verslanir eða slökun á heilsulind.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Pieniny fjöllin og Polanica Zdrój
Eftir morgunverð og útritun af hóteli fer hópurinn í rólega og töfrandi flúðasiglingu á viðarbátum. Siglt er á Dunajec ánni milli hárra kletta og trjáa í öruggum höndum flisak-leiðsögumanna.
Því næst er haldið til Polanica Zdrój, fallegs heilsulindarbæjar með Art Nouveau sjarma. Innritun á hótel Villa Polanica og afslöppun.
Kvöldverður á hótelinu til að fagna lokakvöldinu í Póllandi.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og kvöldverður.
Kveðjum Pólland – Prag
Útritun af hótelinu að loknum morgunverði og ekið til Prag.
Þar með lýkur ævintýraferð um suður hluta Póllands sem lifa mun í minningunni. Innritun á hótel Cloud One Prague þar sem gist verður í tvær nætur. Cloud One Prague er nútímalegt og stílhreint hótel staðsett í miðborg Prag í nálægð við helstu ferðamannastaði og almenningssamgöngur.
Hótelið býður upp á þægileg og vel hönnuð herbergi, góðan morgunverð og þakbar með frábæru útsýni yfir borgina.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Frjáls dagur í Prag.
í Prag er gaman að rölta um gamla bæinn, ganga yfir Karlsbrúna, skoða Prag-kastalann, setjast á kaffihús eða bjórhús og njóta fallegs útsýnis, góðs matar og afslappaðrar stemningar.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Heimferðardagur
Lagt verður af stað með rútu á flugvöllinn kl. 10:30. Innritun í flug Icelandair FI 537 kl. 14:00 og með lendingu í Keflavík kl. 15:55 að íslenskum tíma.
Fararstjórn, verð, greiðslur, innifalið og bóka ferð
Ingi Þór Jónsson er fararstjóri í þessari ferð. Ingi Þór er markaðsstjóri Heilsustofnunar í Hveragerði. Ingi Þór er víðsigldur og hefur ferðast vítt og breitt m.a. sem fararstjóri Kolumbus.
Auk Inga Þórs verða enskumælandi staðarleiðsögumenn.
Verð: 589.000 kr. á mann miðað við gistingu í tveggja manna herbergi.
Aukagjald fyrir gistingu í einstaklingsherbergi er 120.000 kr.
Greiða þarf 50.000.- kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka.
Eftirstöðvar verða innheimtar allt að 70 dögum fyrir brottför, með greiðslutengli sem sendur er í tölvupósti.
Að öðru leiti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko ehf. sem nálgast má á heimasíðu skrifstofunnar.
• Flug Icelandair til Prag fram og til baka – 23 kg taska, allir skattar og gjöld.
• Gisting í 10 nætur á 4ra og 5 stjörnu lúxus hótelum með morgunverði. Þar af hafa hótelin í Wrocław, Kraków og Zakopane hlotið Michelin Key árið 2025.
• 2 kvöldverðir.
• Skoðunarferðir og aðgangseyrir skv. ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn Inga Þórs Jóssonar og enskumælandi leiðsögumenn.
• Allur rútuakstur ásamt köldu vatni og léttum drykkjum um borð.
Hótelin sem við gistum á
Hotel Ibis Styles Wałbrzych ★★★★
Altus Palace Hotel ★★★★★
Stradom House – Autograph Collection ★★★★★
Bachleda Residence Zakopane ★★★★★
Villa Polanica ★★★★
Cloud One Prague ★★★★
Brottför
Umsagnir viðskiptavina okkar





















































































































