Kolumbus Ævintýraferðir bjóða nú enn eina spennandi hópferð til Japan. Flogið verður með Finnair alla leið til Tokyo með viðkomu í Helsinki.
Þessi ævintýraferð er blanda af einstöku borgarlífi, aldagamalli menningu, trúarbrögðum, magnaðri náttúru og mun jafnframt gefa okkur innsýn í nútímalegan menningarheim sem hvergi á sinn líka.
Kolumbus Ævintýraferðir bjóða nú enn eina spennandi hópferð til Japan. Flogið verður með Finnair alla leið til Tokyo með viðkomu í Helsinki.
Þessi ævintýraferð er blanda af einstöku borgarlífi, aldagamalli menningu, trúarbrögðum, magnaðri náttúru og mun jafnframt gefa okkur innsýn í nútímalegan menningarheim sem hvergi á sinn líka.
Við ferðumst vítt og breitt um Japan með Shinkansen (ofurhraðlestinni) en dveljum fyrstu næturnar í TOKYO, einni af stærstu borgum veraldar með sín ólíku og spennandi andlit. Heimsækjum Fuji fjall og Kawaguchi vatnið, förum til gömlu keisaraborgarinnar KYOTO og NARA, skoðum fegursta kastalann í Japan og fögru garðana í HIMEJI. Síðan liggur leið hópsins til HIROSHIMA, borgarinnar sem hvarf að mestu en reis aftur, förum út á MIYJIMA eyju og skoðum Buddha hofin og hið magnaða „Fljótandi hofhlið“. Við endum ferðina í OSAKA, næststærstu borg Japans þar sem við kynnumst töfrum þessarar kraftmiklu borgar þar sem hjarta japanskra viðskipta slær. Þar skoðum við áhugaverðustu staði og byggingar borgarinnar og förum í stærsta sjávardýrasafn í heimi, OSAKA AQUARIUM KAIUKAN.
Ferðamáti
Í þessari ævintýraferð okkar um Japan leitumst við við að upplifa landið og þjóðfélagið á svipaðan máta og heimamenn gera. Við ferðumst mest með lestum og trillum töskunum okkar sjálf milli lestarstöðva og hótela sem alltaf eru í stuttu göngufæri. Við mælum því með einni meðalstórri ferðatösku og bakpoka á mann. Hótelin okkar eru 3–4 stjörnu, vel staðsett og með vel búin herbergi 20–24m2 að stærð, en það er algengasta stærð herbergja á japönskum hótelum fyrir viðskiptaferðalanga og almenna ferðamenn.
Nauðsynlegt er að þátttakendur séu góðir til gangs.
Ferðatilhögun
Brottför frá Íslandi
Flogið er með Finnair til Helsinki kl. 10:00 og lent kl. 15:25. Brottför frá Helsinki til Tokyo er kl. 18:00 og lent á Haneda-flugvelli kl.13:25 að staðartíma daginn eftir (15. mars).
Komið til Tokyo
Lent í Tokyo (HND) kl. 13:25. Ekið á Shinawgawa Prince Hotel, miðsvæðis í Tokyo þar sem gist verður fyrstu fjórar næturnar. Eftir innritun á hótel er dagurinn frjáls. Tilvalið að skoða sig um í grennd við hótelið, líta í verslanir og fá tilfinningu fyrir mannlífinu í þessari stórborg þar sem búa um 14 milljónir manna (37 milljónir manna á höfuðborgarsvæðinu öllu).
Skoðunarferð um Tokyo
Heilsdags skoðunarferð með lestum um Tokyo. Brottför frá hóteli um kl. 10:00.
Við skoðum Harajuku, borgarhluta þar sem ótrúleg unglingastíska og menning ráða ríkjum. Hjarta Harajuku er án efa Takeshita-stræti og hliðargötur út frá því. Meðfram götunum eru lífstíls, fata- og tískuverslanir, verslanir með notuð föt og fjölbreyttir veitingastaðir. – Í Meiji-hofinu, kynnumst við algjörri andstæðu við ysinn og þysinn í Harajuku. Meiji-hofið, eitt af frægustu hofum Tokyoborgar, var reist árið 1920 til að varðveita í helgidómi anda Meiji keisara og Shoken keisaraynju, eiginkonu hans. Ólíkt öðrum erilsömum helgistöðum í Asíu er Meiji-hofið friðsæll og kyrrlátur tilbeiðslustaður, umlukið þéttum skógi með meira 120.000 trjám. Líkt og Central Park í New York er Meiji-hofið og skógurinn umhverfis það eins og náttúruleg vin í steinsteyptri veröld allt um kring.
Við ljúkum þessari hálfs dags ferð með því að heimsækja vinsælasta verslunar- og afþreyingarhverfið í Tokyo, Shibuya. Hér gefst tækifæri til að fara yfir heimsfrægt göngubrautatorgið í Shibuya. Fullyrt er að á grænu ljósi á hinu heimsfræga Scramble Crossing sem eru fjölmennustu gatnamót í heimi, streymi allt að 2.500 manns eftir gangbrautunum á hverjum tíma.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður og kvöldverður
Fuji fjall og Kawaguchi-vatn
Dagsferð með rútu til Fuji-fjalls. Brottför frá hóteli um kl. 09:00.
Fuji-fjall og Kawaguchi-vatn eru um 140 km í suðvestur af Toyko.
Fyrsti áfangastaður okkar er við Oshino Hakkai uppsprettulindirnar en síðan er haldið að hinu undurfagra Kawaguchi-vatni. Það er annað stærsta af Fuji-vötnunum fimm. Hér njótum við þess ekki aðeins að horfa til Fuji-fjalls af norðurströnd vatnsins og upplifa japanska náttúru í allri sinni vordýrð heldur gefst nægur tími til að rölta meðfram vatnsbakkanum, bregða sér í skemmtisiglingu út á mitt vatnið eða taka kláf upp á Tenjo-fjall og virða þar fyrir sér ógleymanlegt útsýnið. Áfram höldum við og heimsækjum nú afar fallegt lítið þorp, Saiko Iyashi-no-Sato sem er í klassískum japönskum stíl. Ógleymanleg heimsókn þar sem Fuji-fjall trónir yfir þessu litla fallega þorpi.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Tokyo
Skoðunarferð með lestum um Tokyo. Brottför frá hóteli um kl. 09:30.
Við byrjum ferðina á því að heimsækja eina af frægustu nútímabyggingunum í Tokyo, Tokyo Sky Tree. Lokið var við að reisa Himnatréð í Tokyo árið 2012 og það er hæsta bygging í Japan. Við förum upp á fyrstu útsýnissvalir (350 m) og njótum þess að sjá yfir stórborgina og til Fuji-fjalls í 100 km fjarlægð. Næst skoðum við okkur um í gamla miðbænum í Tokyo, Asakusa og Ueno, göngum niður verslunargötuna frægu Nakamise að Asakusa Kannon musterinu (Sensoji-hofinu), elsta og fjölsóttasta búddhahofinu í Tokyo. Við ljúkum ferðinni í Ueno með gönguferð um Ueno-garð og kynnumst loks erli og umstangi á einum af frægustu mörkuðum í Tokyo, Ameya-Yokocho markaðnum.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Kyoto
Haldið til Kyoto. Brottför frá hóteli um kl. 10:00.
Við ferðumst með háhraðalest (Shinkansen) til Kyoto og leiðin liggur m.a. fram hjá Fuji-fjalli. Eftir innritun á Richmond Hotel Premier Kyoto Ekimae förum við í hálfs dags ferð um borgina. Við höldum til Arashiyama sem að flestra dómi er annað áhugaverðasta svæðið í Kyoto. Helsta aðdráttaraflið á svæðinu er Bambus-skógurinn í Arashyiama. Þangað leggja flestir ferðamenn leið sína og ekki að ástæðulausu: Engu líkara en verið sé í öðrum heimi þegar staðið er inn á milli himinhárra bambusstilkanna. Við heimsækjum einnig Tenryuji-musterið. Þetta fornfræga musteri var reist árið 1339 og er talið mikilvægasta musterið í Arashiyama. Umhverfis musterið er yndisfagur japanskur garður, einn sá fegursti í Kyoto.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Kyoto
Hálfsdagsferð með lestum um Kyoto. Brottför frá hóteli um kl. 09:30.
Við skoðum fyrst Nijo-kastala. Þessi sögufrægi kastali var reistur árið 1603 og var aðsetur Tokugawa Ieyasu, fyrsta yfirhershöfðingja (shogun) Edo-tímabilsins (1603-1867). Byggingar kastalans þykja best varðveittu dæmin um húsagerðarlist kastala-halla á öldum lénsskipulags í Japan. Göngum um hið myndræna Pontocho stræti til Gion (Geishu-hverfisins) og hins forna Yasaka-hofs. Gion er hið víðkunna geishu-hverfi í Kyoto. Hér má hverfa aftur í tímann og sjá fyrir sér hvernig umhorfs var í Kyoto fyrr á öldum. Ef heppnin er með gætum við komið auga á raunverulega geishu á gangi eftir einhverju strætinu. Frjáls tími í eftirmiðdaginn.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Nara
Dagferð með rútu til Nara. Brottför frá hóteli um kl. 09:00.
Þegar komið er til Nara röltum við um Naragarðinn fræga og fylgjumst með villtu dádýrunum sem eru í hundruðavís í þessari vin þar sem þau blanda gjarnan geði við okkur gestina. Þá heimsækjum við Todaiji musterið og Kasugahofið, staði sem eru báðir á menningarminjaskrá UNESCO. Todaiji musterið var reist að skipun Shomu keisara árið 752 og er talið eitt af merkustu búddhamusterum í Japan. Stóri Buddha-salurinn í musterinu var áður fyrr stærsta timburmannvirki í heimi. Í salnum er geysistór 16 metra há bronsstytta af Buddha en í styttunni eru meira en 400 tonn af bronsi og 130 kíló af gulli. Ekki langt frá Todaiji musterinu er Kasugahofið. Þetta sögufræga hof er merkasta og mikilsvægasta hofið í hinni fornu höfuðborg Nara. Hofið er víðfrægt fyrir fallegar luktir sem trúariðkendur hafa gefið til musterisins. Bronsluktir, svo hundruðum skiptir, hanga utan á byggingunum og meðfram göngustígum að musterinu eru fjölmargar mosavaxnar steinluktir.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Frjáls dagur í Kyoto
Valkvæð hálfsdagsferð fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða Kyoto Imperial Palace og Nishiki markaðinn.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Himeji
Brottför frá hóteli um kl. 10:15 og ferðast með háhraðalest frá Kyoto til Himeji.
Eftir innritun á Daiwa Roynet Hotel Himeji heimsækjum við hinn stórfenglega Himeji-kastala sem talinn er besta dæmið um hefðbundna japanska kastalabyggingu frá fyrri tíð. Kastalinn, sem gengur einnig undir nafninu „Kastali hvíta hegrans“, er einn af tólf upprunalegu köstulunum í Japan og þykir glæsilegastur þeirra allra. Við hliðina á kastalanum er næsti áfangastaður okkar, japanski garðurinn Kokoen. Garðurinn er í reynd níu aðskildir garðar, hannaðir eftir mismunandi stílbrigðum frá Edotímabilinu.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Hiroshima
Brottför frá hóteli um kl. 09:30 og ferðast með háhraðalest frá Himeji til Hiroshima.
Eftir að komið er til Hiroshima og innritun á Daiwa Roynet Hotel Hiroshima-ekimae förum við í hálfsdags skoðunarferð og heimsækjum hið áhrifamikla Friðarminningarsafn, Friðarminnigargarðinn, Atómsprengjuhvelfinguna og staðinn sem var beint fyrir neðan kjarnorkusprengjuna þegar hún sprakk í 600 m hæð. Hér sjáum við með eigin augum afleiðingar kjarnorkusprengjunnar sem varpað var á Hiroshima 6. ágúst árið 1945. Þessi heimsókn lætur engan ósnortinn.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Miyajima-eyja
Dagsferð með lest og báti til Miyajima-eyjar. Brottför frá hóteli um kl. 09:30.
Þegar komið er til Miyajima-eyjar skoðum við fyrst hið heimsfræga Itsukushima-hof. Þetta stórfenglega hof er þekktast fyrir hið „fljótandi hlið“ að hofinu (jap. torii) sem virðist fljóta á öldunum á flóði. Næst heimsækjum við Daisho-in musterið, fallegt búddhamusteri, eitt af höfuðmusterum Shingon-búddhadóms. Musterið stendur við rætur Misenfjalls og þar má skoða margar sögulegar byggingar, styttur og önnur trúarleg verk. Mikil ostrurækt er í kringum eyjuna og því tilvalið fyrir ostruunnendur að heimsækja einhvern þeirra mörgu veitingastaða sem bjóða ostrur beint upp úr hafinu.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Osaka
Brottför frá hóteli um kl. 11:00 og ferðast með Shinkansen háhraðalest til Osaka.
Eftir innritun á DEL style Osaka Shinsaibashi hótelið verjum við síðdeginu í hálfsdags skoðunarferð um miðborgina og kíkjum meðal annars á mikilfenglegar verslunargötur s.s. Shinsaibashi og Namba.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Dagsferð um Osaka
Brottför frá hóteli um kl. 09:45 í hálfsdagsferð með lestum um Osaka.
Við heimsækjum Kaiyukan sjávardýrasafnið í Osaka, stærsta sjávardýrasafn í heimi. Þetta gríðarmikla sjávadýrasafn er eitt helsta aðdráttaraflið í Osaka og þar má sjá búsvæði sjávardýra í Kyrrahafi og víðar í risastórum vatnsgeymum. Í safninu er gríðarlegt úrval dýra og stórkostleg umgjörð þar sem dýrin eru í fjölbreyttu náttúrulegu umhverfi.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður og kvöldverður
Heimför
Útritun af hóteli kl.11:00.
Frjáls dagur í Osaka og tilvalið að fara upp í Umeda Sky Building eða eða kíkja í verslanir.
Haldið út á Kansai-flugvöll (KIX) þaðan sem flogið verður með Finnari til Helsinki kl. 23:25 og lent síðan í Keflavík kl. 07:50 á staðartíma næsta morgun (29. mars) eftir stutt stopp í Helsinki.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður
Fararstjórn, verð, greiðslur, innifalið og bóka ferð
Thomas Möller, verkfræðingur og lærður leiðsögumaður, er fararstjóri í þessari ferð. Thomas er víðförull og þekkir Japan af eigin reynslu.
Verð á mann: 1.070.000 kr. Aukagjald fyrir eins manns herbergi er 95.000 kr.
Geiða þarf 100.000 kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka.
Eftirstöðvar verða innheimtar allt að 70 dögum fyrir brottför, með greiðslutengli sem sendur er í tölvupósti.
Að öðru leyti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko travel group sem nálgast má á heimasíðu ferðaskrifstofunnar.
• Flug fram og til baka til Japan auk flugvallaskatta
• Gisting og morgunverður á völdum gæðahótelum samkvæmt ferðatilhögun
• Tveir kvöldverðir
• Allar ferðir innan Japan, þ.m.t. með háhraðalestinni („Shinkansen“)
• Allur aðgangur að söfnum og ferðamannastöðum
• Íslensk fararstjórn
• Staðarleiðsögumaður í Japan
Brottför
Umsagnir viðskiptavina okkar









