Nice höfuðborg Alpes-Maritimes héraðsins og stærsta borgin á Frönsku rívíerunni (Côte d’Azur) er heillandi blanda af líflegu borgarlífi, fallegri náttúru og ríkri menningu. Borgin er þekkt fyrir sitt einstaka Miðjarðarhafsloftslag, glæsilega strandlengju og listræna arfleifð. Kolumbus – Ævintýraferðir bjóða nú í fyrsta skipti upp á einstaka ferð á Frönsku rívíeruna, með íslenskri fararstjórn, þar sem farþegum gefst kostur á að heimsækja marga af fallegustu stöðum borgarinnar ásamt því að ferðast til og njóta fjölmargra þekktra staða í nágrenni borgarinnar. Má þar nefna dagsferð til Furstadæmisins Mónakó, ferð til Grasse, ilmvatnshöfuðborgar Frakklands og Cannes.
Gist er á Holiday Inn Nice Hotel 4*. Hótelið er staðsett í miðbæ Nice, í aðeins 10 mínútna göngufjarlægð frá Promenade des Anglais og ströndinni. Þetta gerir það mjög þægilegt fyrir þá sem vilja njóta strandarinnar, verslana og veitingastaða borgarinnar. Þá er einnig stutt í fjölmarga áhugaverða staði í borginni.
Ferðatilhögun
Flogið frá Íslandi til Nice
Flogið í beinu flugi með Icelandair FI560 kl. 08:25 og lent á NCE-flugvellinum hjá Nice um kl. 14:45. Fararstjórinn safnar hópnum saman og gengur með að rútu sem ekur að Holiday Inn Nice Hotel 4* þar sem dvalið verður í 7 nætur.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og kvöldverður.
Nice / Saint-Jean-Cap-Ferrat / Nice – heilsdagsferð
Eftir morgunverð er haldið í heilsdagsferð um hina víðfrægu Côte d’Azur (Bláströnd). Dagurinn hefst með skoðunarferð í rútu um Nice, borg á undurfögrum stað á milli fjalls og fjöru sem er þekkt fyrir fallegar baðstrendur, heillandi gamlan miðbæ og kjötkveðjuhátíðina. Ekið er m.a. eftir Promenade des Anglais sem sveigir meðfram einum fegursta flóa í heimi, Baie des Anges eða Englaflóa. Listamenn hafa verið gagnteknir af fegurðinni á þessum stað og friðsælu andrúmsloftinu. Í lokin á þessari skoðunarferð um Nice er rölt um gamla miðbæinn þar sem umferð bíla er bönnuð. Hér er gengið um falleg stræti meðfram húsum sem bera svip af einkennandi byggingarstíl í Provence. Aðalgatan nefnist Cours Saleya þar sem er m.a. dæmigerður blómamarkaður fyrir Provence og fjölmargir veitingastaðir og krár. Hádegisverður á veitingastað í Nice.
Eftir hádegisverðinn er ekið til hins undur fallega strandhöfða Saint-Jean-Cap-Ferrat þar sem má finna íburðarmikinn íverustað sem sameinar list og fegurð með fallegu útsýni yfir Miðjarðarhaf. Þetta ríkulega stórhýsi, Villa Ephrussi de Rothschild, er miðja vegu á milli Nice og Mónakó og frábær upplifun að skoða þar húsakynni og stórfenglega skrúðgarða. Staldrað við í Tehúsinu þar sem tekið er te- eða kaffihlé.
Í lok dags er ekið aftur á hótelið í Nice.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Nice / Grasse / Saint Paul de Vence / Nice – heilsdagsferð
Eftir morgunverð er lagt af stað til Grasse, ilmvatnshöfuðborgar Frakklands. Grasse er aðsetur sérfræðinga og kunnáttumanna í ilmvatnsgerð, sannkallaðra listamanna þegar kemur að því að setja saman og búa til ilmvötn. Upphaflega, á miðöldum, var Grasse víðkunn í Evrópu fyrir skinnaverkun, sútun og leðurhanskagerð. En leðrið lyktaði ekki vel eftir sútunina og aðalsmenn kvörtuðu undan því að fýla væri af hönskunum. Þá datt handverksmanni nokkrum í hug að dýfa nýsaumuðum hönskum ofan í ilmandi kjarnaolíur. Frá og með 16. öld voru ilmefni borin á nýja hanska og þar með hófst ilmefnagerð í Gasse og þróaðist smám saman í þá listiðngrein að blanda ilmvötn. Í Gasse heimsækjum við hina kunnu Fragonard ilmvatnagerð.
Frá Gasse verður ekið til Saint-Paul-de-Vence, smábæjar uppi á hæð sem girtur er múrum sem François I. lét reisa í byrjun 16. aldar. Hádegisverður á veitingastað í bænum og síðan farið í gönguferð um þröng og hrífandi strætin í Saint-Paul-de-Vence, frá Porte Royale að Suðurhliðinu. Saint-Paul er eflaust eitt af fegurstu þorpunum á Côte d’Azur, töfrandi staður sem hefur laðað til sín ótal kunna listamenn, málara, rithöfunda og ljóðskáld sem sumir hafa sest þar að. Sjá má nokkur af verkum þessara listamanna í Maeght-stofnuninni (aðgangseyrir innifalinn) sem geymir safn af málverkum, höggmyndum, teikningum og grafíkmyndum frá 20. öld. Málarinn heimskunni, Marc Chagall, hvílir ásamt eiginkonu sinni í kirkjugarðinum í Saint-Paul. Að lokinni dvöl í Saint-Paul-de-Vance er ekið til baka til Nice með stuttri viðkomu í Mougins þar sem Pablo Picasso bjó síðustu 15 ár ævi sinnar.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Frjáls dagur í Nice
Tilvalið að rölta um og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða.
Máltíðir innifaldar: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.
Nice / Cannes / Nice – heilsdagsferð
Eftir morgunverð er ekið til Cannes þar sem farið verður í gönguferð um elsta hluta borgarinnar utan í og uppi á hæð við höfnina, Le Suquet–hverfið, með sínum þröngu, steinlögðu strætum, kirkju frá 16. öld og forngripasafninu Castre. Efst á hæðinni er frábært útsýni yfir borgina fyrir neðan, blátt hafið og Lérins-eyjar. Eftir að hafa notið þessa útsýnis er gengið niður hæðina eftir þröngum strætum á Forville-markaðinn og þaðan niður að sjó. Gengið meðfram ströndinni og m.a. fram hjá Palais des Festivals et des Congrés (Hátíða- og ráðstefnuhöllinni) þar sem ein helst kvikmyndahátíð heims, Kvikmyndahátíðin í Cannes, er haldin á hverju ári. Göngunni lýkur svo á Boulevard de la Croisette, glæsilegu 2 km löngu breiðstræti meðfram sjónum þar sem gefst tóm til að njóta umhverfisins, sýna sig og sjá aðra.
Eftir hádegisverð á veitingastað í Cannes er haldið til baka til Nice með viðkomu í Antibes. Antibes er töfrandi strandbær á Frönsku rívíerunni, staður sem hefur laðað til sín og laðar enn til sín listamenn og stórstjörnur í tónlist og kvikmyndum og þar er haldin virt jasshátíð á hverju ári. Farið verður í gönguferð um bæinn. Picasso bjó hér um tíma og safn með verkum eftir hann er í Château Grimaldi. Bærinn á sér langa sögu og þar gnæfa yfir virkiskastalinn Fort Carré og Sarrasines-turnar, en samtíminn blasir við í Port Vauban, falleg höfn fyrir lúxusskútur og snekkjur þeirra sem nóg hafa á milli handanna. Eftir viðdvöl í Antibes verður svo ekið á hótelið í Nice.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Frjáls dagur í Nice
Tilvalið að rölta um og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Nice / Mónakó-Monte Carlo / Eze / Nice – heilsdagsferð
Eftir morgunverð er haldið í heilsdagsferð til Mónakó og ekið þangað eftir hinni kunnu Basse Corniche, neðstu Hlíðarbraut sem þræðir snarbrattar hlíðar upp frá sjónum, m.a. fram hjá Cap d’Ail, fallegu þorpi með glæsilegum einbýlishúsum.
Komið til Mónakó. Furstadæmið Mónakó er lítið borgríki þar sem fegurð, lúxus og vellystingar setja svip sinn á mannlífið. Ferðaþjónusta er stærsta tekjulind furstadæmisins og þar ræður nú ríkjum Albert II. prins, sonur leikkonunnar Grace Kelly og Rainiers fursta. Margt er einstakt og einkennandi fyrir Mónakó. Fyrir utan mállýskuna monégasque (sem tiltölulega fáir nota dagsdaglega, opinbert mál er franska) og staðbundna, ljúffenga rétti er þetta örlitla land einkum þekkt fyrir fallegar baðstrendur, spilavítið fræga og verslanir þar sem í boði eru munaðar- og merkjavara. Á meðal fjölsóttra ferðamannastaða í furstadæminu er Monte Carlo-hverfið, aðsetur ríka fólksins, þekkt fyrir glamúr og lystisemdir. Þar er hið fræga Carré d’Or (Gullna torgið), Monte Carlo-spilavítið og Café de Paris. Hópurinn snæðir hádegisverð á staðnum og að honum loknum er farið í gönguferð um Mónakó og leiðin liggur m.a. fram hjá furstahöllinni, dómkirkjunni, þar sem gröf Grace Kelly er, og litið er inn í mikilfenglegt sædýrasafnið, aðgangseyrir ekki innfalinn í verði ferðar. Ekið til baka til Nice eftir neðstu Hlíðarbraut. Á leiðinni er höfð viðdvöl í þorpinu Eze þar sem farið er í stutta gönguferð. Þorpið rekur sögu sína aftur til 10. aldar og töfrandi er að rölta þar um þröng stræti kringum rústir af kastala frá miðöldum. Eze hafði orð á sér fyrir að vera friðsæll og kyrrlátur staður og hafa ýmsir víðfrægir menn búið þar í lengri eða skemmri tíma. Kunnastur þeirra er trúlega Nietzsche en það var einmitt í Eze sem hann skrifaði „Svo mælti Zarathustra“. Til að minnast nærveru þessa manns er stígur í þorpinu kenndur við hann, „Chemin de Nietzsche“.
Komið síðdegis á hótelið í Nice.
Máltíðir innifaldar: Morgun og hádegisverður.
Brottför frá Nice
Nú er ævintýrinu í Nice að ljúka og komið að heimferð. Skráningu þarf að vera lokið út af hótelinu fyrir kl. 12:00.
Eftir morgunverð er tilvalið að byrja síðasta daginn á Frönsku rívíerunni með því að rölta á Blómamarkaðinn í gamla bænum í Nice og hugsanlega kaupa þar eitthvað til minja um ferðina. Hádegisverður á veitingastað í borginni og síðan er hópnum ekið á NCE flugvöllinn í Nice þar sem Icelandair vélin, FI561, tekur á loft heimleiðis til Íslands kl. 15:45. Lending á Íslandi áætluð um kl. 18:05
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Fararstjóri, verð, greiðslur og innifalið
Draupnir Rúnar Draupnisson
Norðfirðingurinn sem hefur ferðast til 134 landa í heiminum. Hann er nýkominn til starfa hjá Kolumbus – Ævintýraferðum en hann býr að langri reynslu sem fararstjóri með fjölda hópa víðs vegar um heim.
Verð: kr. 489.000 á mann miðað við gistingu í tveggja manna herbergi.
Aukagjald fyrir gistingu í einstaklingsherbergi er kr. 179.000.
Geiða þarf 50.000 kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka.
Eftirstöðvar verða innheimtar 70 dögum fyrir brottför.
Að öðru leiti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko Travel Group sem nálgast má á heimasíðu kolumbus.is
• Flug Icelandair til Nice 22. maí og til baka 29. maí – 23 kg. taska, handfarangurstaska, allir skattar og gjöld.
• Gisting í 7 nætur á Holiday Inn Nice Hotel 4* með morgunverði.
• Máltíðir, morgun-, hádegis- og kvöldverðir eins og tilgreint er í ferðalýsingu.
• Skoðunarferðir skv. ferðalýsingu ásamt leiðsögumanni.
• Allur rútuakstur skv. lýsingu.
• Íslensk fararstjórn.
Holiday Inn Nice Hotel 4*
Bóka
Örfá sæti laus!
Eingöngu er boðið upp á gistingu í tvíbýli þar sem káeturnar eru allar tveggja manna.
Þegar þú hefur staðfest bókun verður
stofnaður greiðsluseðill í heimabanka fyrir staðfestingargreiðslu.
Uppselt – Biðlisti!
Hægt er að skrá sig á biðlista fyrir með því að hafa samband við okkur á niko@niko.is.
Nánari upplýsingar
Allar nánari upplýsingar eru veittar í síma
499-2960 eða á netfanginu niko@niko.is.