Upplifðu óendanlegan fjölbreytileika Suður-Ameríku! Litríkar menningarhefðir, töfrandi náttúru og stórkostlegan mat allt í einni ferð.

Upplifðu óendanlegan fjölbreytileika Suður-Ameríku! Litríkar menningarhefðir, töfrandi náttúru og stórkostlegan mat allt í einni ferð.

Ævintýraferð sem leiðir þig í gegnum þrjú af dýrmætustu svæðum Suður-Ameríku, frá víðáttumiklum ströndum Kyrrahafsins í Perú þar sem leyndardómar Inkaríkisins lifa enn. Chile þar sem nútími og náttúra mætast milli snæviþakina tinda Andesfjalla og að lokum til einnar af einangruðustu og mest töfrandi eyju jarðar: Páskaeyju (Rapa Nui) – þar sem þú stígur inn í dularfulla sögu Moai-styttna og forna siði sem lifa áfram í dansi og söng.

Lima, er ein áhugaverðasta borg Suður-Ameríku þar sem andi Inka, spænsk nýlendusaga og nútímaleg lífsgleði blandast saman. Heilagi dalurinn, eða Valle Sagrado eitt helgasta og mikilvægasta svæði í Inkaríkinu liggur meðfram hlykkjóttum fljótum og bröttum fjallshlíðum þar sem finna má minjar frá tímum Inkanna, þar sem hefðir lifa enn í gegnum handverk, tónlist og daglegt líf íbúanna. Upplifðu töfra Machu Picchu sem stendur stolt og dularfull í hjarta fjallanna – eitt af sjö undrum veraldar og er skráð á Heimsminjaskrá UNESCO.

Santiago, nútímaleg og lifandi höfuðborg sem stendur undir rótum Andesfjallanna. Valparaíso litrík, skapandi og sögurík borg sem stendur við brattar hlíðar með útsýni yfir Kyrrahafið og sameinar bóhemíska menningu og suðandi daglegt líf og er skráð á Heimsminjaskrá UNESCO.

Páskaeyja, eða Rapa Nui, er ein af afskekktustu og dularfyllstu stöðum jarðar staðsett í miðju Kyrrahafinu og býður upp á stórkostlega náttúru, fallegar strendur og einstaka möguleika til að upplifa forna menningu, skoða dularfullar Moai-styttur sem eru á Heimsminjaskrá UNESCO, njóta kyrrðar og ævintýra í einstöku umhverfi.

Ferðatilhögun

Brottför frá Íslandi

Ferðin hefst í Leifsstöð með flugi Icelandair FI-691 til Miami kl. 17:15 og lent þar kl. 21:55 að staðartíma. Farþegar fara í gegnum toll og eftirlit og eftir það er haldið með hótelskutlum stuttan spöl að Sonesta Miami Airport hótelinu þar sem gist verður fyrstu nóttina.

Miami og flogið til Lima

Sannkallaður hvíldardagur eftir flugið til Ameríku. Dagurinn frjáls og tilvalið að hlaða batteríin fyrir komandi ferðalag til Suður Ameríku. Herbergin eru bókuð þar til að við förum út á völl og hægt að nýta daginn til þess að slaka á við sundlaugarbakkann.

Farið verður upp á flugvöll eftir hádegi þar sem hópurinn innritar sig í flug LATAM 2481 með brottför kl. 17:00 í beinu flugi til Lima þar sem lent er á alþjóðaflugvellinum kl 21:40. Keyra þarf í rúman hálftíma inn til Lima frá flugvellinum þar sem innritun fer fram á Souma Hotel, glæsihótel í Miraflores-hverfinu með upphitaðri „rooftop“ sundlaug með stórfenglegu útsýni til Kyrrahafsins.

Máltíðir innifaldar: Morgunverður.

Lima

Dagurinn hefst með skoðunarferð um Lima, hina líflegu og litríku höfuðborg landsins þar sem við heimsækjum Plaza Mayor, friðsælt og fallega hannað svæði þar sem saga, trú og stjórnmál mætast í stórkostlegu andrúmslofti. Á þessu torgi standa nokkrar af mikilvægustu byggingum landsins þar á meðal forsetahöllin, glæsileg bygging með nýlendustíl, dómkirkjan með ríkulegri innréttingu, grafhýsi Francisco Pizarro og barokklistaverkum. Santo Domingo eitt elsta klaustur Perú með rómuðum hvelfingum, San Francisco þar sem katakombur og gömul bókasöfn gefa innsýn í arfleifð nýlendutímans.

Eftir að hafa heimsótt gamla bæinn liggur leið okkur niður að hafinu á veitingastaðinn CALA sem er einn glæsilegasti sjávarréttarstaður borgarinnar og stendur beint við Kyrrahafið á hinni frægu strandgötu “Circuito de Playas”. Hér sameinast hágæða matur, afslappað andrúmsloft og stórkostlegt útsýni við ölduhljóð Kyrrahafsins. Rútan keyrir hópinn svo upp á hótel og er eftirmiðdagurinn frjáls. 

Fyrir áhugasama er tilvalið að heimsækja Larco safnið sem gefur innsýn í fjölbreytta menningu og list Perú. Aðrir geta notið þess að ganga um Miraflores hverfið þar sem hótelið er staðsett sem er eitt af vinsælustu og fallegustu hverfum Lima og frábær staður til að kynnast matarmenningu Perú á einum af mörgum veitingastöðum á svæðinu eða taka því rólega á hótelinu á meðan sólin sekkur í sjóndeildarhringinn og varpar gylltum litum yfir Kyrrahafið og njóta ógleymanlegs sólseturs við strendur Lima.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.

Cusco og hinn heilagi dalur

Lagt er af stað snemma morguns þar sem við fljúgum áfram í stuttu innanlandsflugi til Cusco kl. 9:20 og lendum þar kl. 10:40 þar sem við hefjum ferðalagið um töfrandi slóðir, sögulegar rústir og stórbrotna náttúru sem leiðir okkur áfram inn í hjarta Inka menningarinnar.

Frá flugvellinum í Cusco liggur leið okkur til Pisco sem eru meðal mikilvægustu fornleifasvæða í Andesfjöllum og hluti af hinum heilaga dal Inkanna (Valle Sagrado de los Incas). Rústirnar sýna stórbrotinn arkitektúr, verkfræðilega snilld og djúpa tengingu við náttúru og landbúnað. Við heimsækjum einnig Pisac markaðinn þar sem finna má bæði landbúnaðarafurðir og handverk sem er áhugaverð upplifun sem gefur nýja sýn á menningu svæðisins.

Dvalið verður í 2 nætur á Sonesta Posadas del Inca sem er í hjarta dalsins og umkringt fjöllum og fallegum görðum. Hótelið er til húsa í endurgerðri gamalli klausturbyggingu frá 18. öld sem skapar einstakt andrúmsloft, rólegt, hlýlegt og nátengt sögu og menningu svæðisins.

Ævintýri dagsins er ekki lokið, eftir að við höfum komið okkur fyrir á hótelinu og hvílt okkur verður farið á nærliggjandi búgarð, töfrandi stað í miðjum dalnum og fáum við að sjá hinn einstaka pervíska Paso hest sýna hæfileika sína ásamt því að njóta dýrindis matargerðar byggðri á ferskum hráefnum frá svæðinu.

Máltíðir innifaldar: Morgunverður, perúskur nestispakki og kvöldverður.

Skoðunarferð til Maras, Moray og Chinchero

Eftir morgunverð á hótelinu leggjum við af stað í heilsdagsferð sem sameinar menningu og stórkostlegt landslag þessa heilaga dals og keyrum meðfram hlykkjóttum fljótum og bröttum fjallshlíðum þar sem hefðir lifa enn í gegnum handverk, tónlist og daglegt líf íbúanna. 

Við byrjum á að heimsækja, Maras saltnámurnar eða Salineras de Maras einstakt dæmi um náttúru, sögu og hefðir sem lifa enn í nútímanum. 

Ferðinni er svo heitið til Moray, þar sem er að finna eitt af áhrifamestu og dularfyllstu fornleifa svæðum Inkanna og er einn af þeim stöðum sem gefa innsýn í dýpt landbúnaðar- og vísindalegrar þekkingar Inkanna.

Hádegisverður verður undir berum himni og verður efnt til sannkallaðrar veislu þar sem tekið verður á móti okkur með veitingum og drykkjum eins og heimamönnum einum er lagið. Einstök upplifun þar sem matur, náttúra og saga blandast saman. Dagurinn endar svo í Chinchero þorpinu sem er þekkt fyrir vandaða textílgerð og ríka sögu frá tíma Inkanna. 

Komið verður upp á hótel að loknum löngum degi í hinum heilaga dal og hægt að njóta kvöldsins í hótelgarðinum sem býður upp á marga möguleika í bæði mat og drykk.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.

Ollantaytambo – Aguas Calientes

Nú pökkum við öllum farangri þar sem næsti sólarhringur fer í það að ferðast að einum af hápunktum ferðarinnar, heimsókn að hinni fornu og dularfullu Inka borg, Machu Picchu. Heimilt er að taka með sér 8 kg bakpoka fyrir næstu næturgistingu og verða allar ferðatöskur sendar á næsta áfangastað i Cusco.

Dagurinn byrjar því á heimsókn í Ollantaytambo, forna virkisborg sem var helgur staður í menningu Inkanna og er í dag lykil staður til að komast til Machu Picchu.

Eftir áhugaverða heimsókn þar verður verður ekið á veitingastað þar sem við fáum að njóta hefðbundins “Pachamanca” hádegisverðar. Þetta er er sérstök eldunaraðferð þar sem matur er eldaður í heitu grjóti sem grafið er í jörðina. Að hádegismat loknum hefst ferðalag okkar þar sem við förum um borð í Vistadome-lestina sem tekur okkur upp til Aguas Calientes sem er síðasta hvíldarstaðurinn áður en haldið er upp að rústunum næsta dag.

Hér gistum við í eina nótt á Hotel El MaPi by Inkaterra, snæðum kvöldverð saman á hótelinu og undirbúum okkur fyrir loka hnykkinn að sjálfu Machu Picchu.

Máltíðir innifaldar: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.

Machu Picchu

Í dag er komið að því að bera Machu Picchu augum, eitt af undrum veraldar og eitt af merkustu og fallegustu fornminjum heims staðsett í um 2.430 metra hæð.

Hópurinn gengur ásamt leiðsögumanni um svæðið og frjálst tími gefst til að njóta útsýnisins og smella í póstkortamynd til að senda heim! 

Hádegismatur verður svo í boði fyrir hópinn þegar við komum niður og eftir það er ferðst með lestinni til baka þar sem rútur bíða okkur og taka hópinn til borgarinnar Cusco þar sem gist verður á Hotel Novotel Cusco næstu 2 næturnar. Eftirmiðdagurinn er frjáls.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.

Cusco og nágrenni

Í dag skoðum við hina sögulegu borg Cusco, fyrrum höfuðborg Inkaríkisins sem er í dag á Heimsminjaskrá UNESCO og það ekki að ástæðulausu. Borgin er einstök blanda af fornri Inka menningu og spænskri nýlenduarfleifð, þar sem Inkasteinlög og spænskar byggingar mynda samfellda sögu í hverju horni. Þröngar götur, sögufræg torg og stórbrotnar kirkjur segja frá dýrð Inkatímans og áhrifum landvinninga Spánverja. Göngum um borgina og skoðum dómkirkjuna sem er eitt áhrifamesta mannvirki borgarinnar ásamt öðrum helstu kennileitum gamla miðbæjarins.

Eftir það er stutt rútuferð að Sacsayhuamán sem er eitt af áhrifamestu og dularfyllstu fornminjasvæðum Inkaveldisins, staðsett rétt fyrir ofan borgina. Þetta stórbrotna vígi var bæði hernaðarlegt mannvirki og trúarlegur helgistaður sem margir telja að búi yfir andlegri orku.

Einnig sjáum við Qenko, dularfullan helgistað Inka sem notaður var fyrir fórna- og helgiathafnir ásamt stöðum eins og Puca Pucara og Tambomachay. Komið til baka um hádegi til Cusco og eftirmiðdagurinn frjáls.

Við kveðjum þetta einstaka land í loka kvöldverði þar sem við fáum að njóta matargerðar Perúbúa í bland við sýningu heimamanna, með litríkum þjóðdönsum og tónlist frá fjöllunum. Glæsileg lokastund í landi Inkanna.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og kvöldverður.

Santiago Chile

Í dag kveðjum við Perú, ríkt af sögu og menningu, og leggjum af stað í ný ævintýri yfir Andesfjöllin til Chile. Við fljúgum frá Cusco kl. 09:20 til Santiago en borgin er á fallegum slóðum milli snævi þakinna tinda Andesfjalla og á sér merka sögu. Lent er í Santiago kl. 14:40 og komið síðdegis á hótelið okkar þar sem við gistum í 3 nætur á 5 stjörnu Rennascanse hótelinu í miðbænum, með útisundlaug, notalegum kaffihúsum og góðum veitingastöðum í grenndinni.

Frjáls tími það sem eftir lifir dagsins og tilvalið að skoða sig um í miðborginni og njóta veðurblíðunnar. Útsýnið til Andesfjalla er stórbrotið en hæstu tindar í nálægð við höfuðborgina ná yfir 5000 m hæð. 

Snemma kvölds ökum við örstutt með rútu í gegnum borgina til Costanera Center þar sem við förum upp í útsýnisturninn Sky Costanera hæsta mannvirki í Suður-Ameríku. Þaðan njótum við stórkostlegs 360° útsýnis yfir borgina og Andesfjöllin. Boðið verður upp á léttar veitingar og drykk á meðan við njótum sólarlagsins.

Rútferð til baka upp á hótel fyrir þá sem vilja, annars eru fjöldinn allur af veitingastöðum í göngufæri við turninn sem gaman er að heimsækja og flottur veitingastaður er einnig á hótelinu.

Máltíðir innifaldar: Morgunverður og léttur forréttur.

Heilsdagsferð til Valparaiso og vínsmökkun í Casablanca-dalnum

Eftir morgunverð, býður okkur heilsdagsferð til Valparaiso, hafnarborgar við strendur Chile. Borg full af sögu, listum og menningu og þar ríkir annað andrúmsloft en í höfuðborginni Santiago. Á 19. öld setti straumur evrópskra innflytjenda mark sitt á arkitektúr og menningarstofnanir borgarinnar. Leiðsögumaður gengur með okkur um litríkar götur borgarinnar, heimsækjum fiskmarkaðinn „Caleta Portales“ áður en við setjumst niður í sameiginlegan hádegisverð á eitt besta veitingahús bæjarins „Mar Alegre“, staðsett inn á hinu glæsilega Hotel Casa Higueras, með stórbrotnu útsýni yfir höfnina og flóann frá veröndinni. Hér verður boðið upp á 3ja rétta matseðil sem rennur ljúflega niður með chilensku vínglasi.

Að því loknu tökum við kláfinn upp að rútunni sem bíður okkar og keyrum í átt að hinni frægu vínekru Viña Casas del Bosque sem er staðsett inni í Casablanca dalnum. Þar er boðið upp vínsmökkun að hætti heimamanna þar sem 5 helstu vín þeirra verða smökkuð ásamt léttum veitingum. Komið til baka upp á hótel um kl. 18:00 og er kvöldið frjálst.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.

Skoðunarferð um höfuðborgina Santiago

Í fáum borgum í Suður-Ameríku er andrúmsloftið jafn heillandi og í höfuð­borg Chile með sinni töfrandi blöndu af gömlu og nýju. Borgin sameinar nútímalega borgarlífshætti við ríka sögu og náttúrufegurð og býður ferðalöngum upp á einstakt jafnvægi milli borgarmenningar og náttúru ævintýra.

Við byrjum skoðunarferð­ina í miðborginni þar sem við fræðumst um sögu Chile og skoðum helstu kennileiti borgarinnar þar á meðal Plaza de Armas, sögulegt torg umkringt safnahúsum, dómkirkjuna og forsetahöll landsins La Moneda. Við endum ferðina á að fara í kláf upp á San Cristóbal hæðina þar sem við blasir einstakt útsýni yfir Santiago með snævi þakta tinda Andesfjalla í baksýn.

Komið til baka um hádegi og gefst gestum þá kostur á að slaka á við sundlaugarbakkann eða kanna borgina á eigin vegum.

Gengið verður saman á veitingastaðinn La Dicha sem staðsettur er inni í Galería CV í hjarta Vitacura-hverfisins, einu glæsilegasta og nútímalegasta svæði Santiago. Hér blandast nútímalist, hönnun og matargerð saman í stílhreinu umhverfi, þar sem boðið er upp á fágaða rétti og notalega stemningu.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og kvöldverður.

Ferðalag til Páskaeyju

Í dag liggur leið okkur til Páskaeyju sem er algjörlega einstök upplifun sem fáir fá tækifæri til að njóta og enn færri geta státað af að hafa komið til. Menning Rapa Nui er einstök blanda af pólýnesískum hefðum, goðsögnum og andlegum siðum sem lifa áfram í dag, eyjan er ein af afskekktustu byggðum í heimi og heimkynni hinna dularfullu Moai-styttna, sem hafa heillað fólk um allan heim. 

Flogið er af stað frá Santiago kl 8:35 og lent kl 12:00 þar sem leiðsögumenn taka á móti hópnum. Við byrjum á að kynnast eyjunni strax við komu og keyrum beint frá flugvelli að Tahai sem er forn helgistaður þar sem hægt er að sjá nokkrar af frægustu og áhrifamestu Moai-styttum eyjarinnar. Snæddur verður hádegisverður á veitingastað á svæðinu áður en við heimsækjum Ahu Akivi þar sem er að finna eina Moai-styttusvæðið á allri eyjunni þar sem stytturnar snúa í átt að hafi. Gist er á Hotel Taha Tai næstu tvær nætur. 

Kvöldverður á eigin vegum – fjölmargir veitingastaðir í boði í Hanga Roa.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.

Páskaeyja

Í dag munum við upplifða töfra eyjarinnar, Moai-stytturnar og menningu Rapa Nui-fólksins.

Við heimsækjum Rano Raraku. Staðurinn er einskonar „verkstæði“ þar sem Rapa Nui-fólkið vann að gerð hinna frægu risastóru steinstyttna sem standa um alla eyjuna. Hér sjáum við hvernig stytturnar voru skornar út, hvenær þær hættu að vera í vinnslu og hversu stórar þær urðu. Það er líka einstakt að ganga um þennan stað þar sem saga og handverk blandast við náttúrufegurð eldfjallsins.

Næst er farið að Ahu Tongariki, þar sem við sjáum stærstu Moai-styttur eyjarinnar. Stórbrotinn og töfrandi staður með útsýni yfir hafið. 

Leið okkur liggur að Anakena-ströndinni sem er eitt fallegasta svæði eyjunnar, þekkt fyrir hvítan sand, fölblátt kristaltært haf og einstakt umhverfi meðal eldfjalla og gróðurs og sá staður sem sagan segir að fyrstu íbúar eyjunnar hafi komið að landi á. Hér munum við njóta þess að borða undir berum himni og verður boðið upp á grillaðan mat í náttúrulegu og afslöppuðu umhverfi með útsýni yfir hafið. Þetta er tilvalinn staður til að njóta og slaka á og anda að sér andrúmslofti Páskaeyju.

Komið til baka í eftirmiðdaginn og tilvalið að slaka á áður en haldið verður í loka kvöldverð ferðarinnar þar sem við fáum að upplifa þjóðdansa heimamanna, lifandi tjáningu með kraftmiklum hreyfingum, söng og hefðbundnum búningum. Dansarnir, segja frá í gegnum dansinn, uppruna, sögulegum atburðum og náttúru eyjarinnar sem eru lykilþáttur í varðveislu arfleifðar Rapa Nui-fólksins. 

Máltíðir innifaldar: Morgun-, hádegis- og kvöldverður.

Orongo

Áður en við kveðjum þessa töfraeyju nýtum við daginn daginn vel, boðið verður upp á að koma og sjá sólarupprásina við Ahu Tongariki, þar sem stórkostlegar Moai-styttur verða að bakgrunni sólarinnar í morgunroðanum. Þetta er ógleymanleg upplifun fyrir þá sem eru tilbúnir að vakna snemma og njóta kyrrðarinnar á þeim tímum þegar fáir aðrir eru vakandi sem gerir upplifunina magnaðri og persónulegri. Rútan fer svo aftur upp á hótel og snæddur er morgunverður áður en hópurinn leggur af stað saman í heilsdagsferð til Orongo, staðsett við brúnir Rano Kau-eldfjallsins. Þessi sérkennilegi staður var miðpunktur hinna fornu „Tangata Manu“ (fuglmanns) helgisiða, þar sem keppendur klifruðu niður klettana, syntu til eyjarinnar Motu Nui og sóttu fuglsegg í hættulegri keppni um völd. Í Orongo eru meira en 50 steinhús og er útsýnið frá staðnum stórfenglegt yfir hafið.

Boðið verður upp á hádegismat á svæðinu og eftir það leggjum við af stað upp á flugvöll og kveðjum þar með þessa mögnuðu eyju og fljúgum í beinu flugi til Santiago kl 16:30 og lendum þar kl 23:00 og innritum okkur á Holiday Inn Airport-hótelið.

Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.

Flogið til Miami

Eftir morgunmat á hótelinu göngum við inn í flugstöðina þar sem brottför er kl 11:00 og flogið verður með Latam Airlines í beinu flugi áleiðis til Miami og lent þar kl 18:35

Farþegar sækja töskur sínar og halda ásamt fararstjóra út fyrir flugstöðvarbygginguna í hótelrútu sem ekur mannskapnum að Sonesta Miami Airport hótelinu og gistum þar í eina nótt.

Máltíðir innifaldar: Morgunverður.

Slökun og brottför til Íslands

Eftir morgunverð er hægt að taka því rólega við sundlaugina enda engin þörf á að skila herberginu fyrr en farið er út á völl síðdegis og er áætluð brottför frá hóteli eftir hádegi og komið þangað skömmu síðar þar sem innritun fer fram í flug Icelandair FI690 með brottför kl. 17:00 

Máltíðir innifaldar: Morgunverður.

Koma til Íslands

Lent er í Keflavík að morgni 4. apríl kl. 05:55.

Þar með lýkur þessari glæsilegu ferð um Suður Ameríku, Perú, Chile og Páskaeyju.

Fararstjórn, verð, greiðslur,  innifalið og bóka ferð

Sigurður K. Kolbeinsson er fararstjóri í þessari ferð. Hann þekkir vel til í Suður Ameríku eftir að hafa ferðast þangað margoft með hópa á undanförnum árum.

Honum til aðstoðar verður Hildur Jónsdóttir svæðisstjóri Kolumbus – Ævintýraferða á Ítalíu. Hildur hefur góða reynslu í utanumhaldi og skipulagi fyrir hópa á vegum Kolumbus – Ævintýraferða. Auk þess verða staðarleiðsögumenn á öllum viðkomustöðum.

 

Verð: 1.290.000 kr. á mann miðað við gistingu í tveggja manna herbergi.

Aukagjald fyrir gistingu í einstaklingsherbergi er 225.000 kr.

Greiða þarf 150.000 kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka. Áfangagreiðsla er 1. september 2025, 570.000 kr. pr. mann og lokagreiðsla 8. desember 2025.

Staðfestingargjald fæst ekki endurgreitt eftir 1. september.

Að öðru leiti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko Travel Group sem nálgast má á heimasíðu kolumbus.is.

Allar nánari upplýsingar eru veittar í síma 499-2960 eða á netfanginu niko@niko.is.

• Flug á Economy Class frá Keflavík til Lima (um Miami) og heimflug frá Santiago (um Miami), þ.m.t. skattar og gjöld.
• Allt innanlandsflug í Perú og Chile þ.m.t. skattar og gjöld.
• Gisting í tveggja manna herbergi í góðum og vel staðsettum hótelum í 15 nætur.
• Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
• Allur flutningur og skoðunarferðir, þ.m.t. aðgangseyrir samkvæmt ferðaáætluninni.
• Aðgangur að Machu Picchu ásamt lestarferðum.
• Perú, allar máltíðir og skemmtanir samkvæmt ferðalýsingu.
• Santiago, aðgangur í Costanera turninn ásamt léttum veitingum, vínsmökkun og kvöldverður.
• Páskaeyja, hádegisverðir, grill, kvöldverður og þjóðdanssýning.
• Svæðisleiðsögumenn.
• Fararstjórn Sigurðar K. Kolbeinssonar sem ferðast með hópnum og verður með honum allan tímann sem fararstjóri.
• Sérstakur kynningarfundur í ársbyrjun 2026 þar sem fararstjóri og starfsfólk Kolumbus – Ævintýraferða mun upplýsa þátttakendur um helstu atriði sem hafa ber í huga áður en lagt er upp í þessa langferð.

Hótelin

Miami: Hotel Sonesta Miami Airport 4*
Perú: Souma Hotel 5*
Perú: Hotel Sonesta Posadas del Inca 4*
Perú: Hotel El MaPi by Inkaterra 4*
Perú: Hotel Novotel Cusco 4*
Chile: Renaissance Santiago Hotel 5*
Páskaeyja: Hotel Taha Tai 3*

Brottför

Dagar
Klst.
Mín.

Umsagnir viðskiptavina okkar

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.