Hringferð um Sikiley í fótspor Guðföðurins, þar sem sagan og ítölsk fegurð sameinast í einni ógleymanlegri upplifun.
Upplifðu töfra Sikileyjar í ferð þar sem saga, menning og stórbrotin náttúra fléttast saman. Við hefjum ferðalagið í líflegu Palermo, borg sem iðar af litum og mannlífi og heimsækjum heillandi sjávarbæi eins og Cefalù þar sem gamli bærinn, gullinn sandurinn og kletturinn yfir bænum skapa nærri því póstkortastemningu. Við tengjumst síðan sögu Guðföðurins með heimsókn í heimabæ Corleone og í þorpin Savoca og Forza d’Agrò, þar sem margar af eftirminnilegustu senum úr kvikmyndinni Guðfaðirinn voru teknar upp.

Matargerð og menning Sikileyjar er engu lík. Í þessari hringferð um eyjuna er ógleymanlegt að koma til Agrigento í hinn stórfenglega Dal hofanna (Valle dei Templi), heimsækja Piazza Armerina með rómversku mósaíkunum og ekki síður að sjá barokk perlurnar Noto, Modica og Ragusa sem allar prýða heimsminjaskrá UNESCO, ásamt því að gista og heimsækja Siracusa.

Ferðinni lýkur með nokkrum töfrandi dögum í Taormina, ásamt ævintýralegri jeppaferð á Etna með vínsmökkun og afslöppun við sjóinn í Giardini Naxos. Ógleymanleg ferð um einstaka eyju þar sem fegurð, matur og menning mætast. Gist er á þremur 4* og einu 5* hóteli sem eru vel staðsett.
Ferðatilhögun
Komudagur til Palermo
Flogið með Icelandair frá Íslandi til Rómar með flugi FI 562 kl. 07:50 og þaðan áfram til Palermo þar sem lent er um kl. 18:20. Keyrt er á Hotel Palazzo Liberty 4* í hjarta gamla miðbæjarins þar sem klassísk ítölsk hönnun og nútíma þægindi mætast. Kvöldið er frjálst og tilvalið að rölta um þröng stræti, líta við á litlum stað við Piazza Borsa og njóta fyrsta kvöldsins á eyjunni.
Palermo & Monreale
Við hefjum daginn í hjarta Palermo – borgar sem iðar af lífi og hefðum. Við skoðum söguleg strætin, heimsækjum litrík markaðssvæði, förum í dómkirkjuna og göngum að Teatro Massimo, þar sem lokaatriði í Guðföðurnum voru tekin upp. Að því loknu göngum við um markaðinn og fáum að smakka á ekta götubita, arancini, steiktu eggaldini og öðru góðgæti. Síðdegis höldum við til Monreale, einnar merkilegustu borgar Sikileyjar sem stendur hátt yfir Palermo með einstöku útsýni yfir borgina. Þar munum við heimsækja hina stórfenglegu dómkirkju sem fræg er fyrir gylltar mósaíkmyndir sínar sem teljast til þeirra glæsilegustu í Evrópu.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður og matarsmakk.
Cefalù
Við ökum norðurströndina til Cefalù, fallegs sjávarbæjar þar sem tíminn stendur í stað.
Við göngum um gamla bæinn, skoðum dómkirkjuna og njótum sjávarloftsins á torginu Piazza del Duomo. Hér borðum við sameiginlegan hádegismat við sjóinn og svo er frjáls tími til að ganga um þennan póstkortabæ og stoppa og slaka á og fá sér gelato eða cappuccino við hafið. Komið til Palermo síðla dags.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Corleone & Palazzo Adriano – Í anda sögunnar
Við kveðjum Palermo og ökum suður yfir fjöllin til lítils bæjar, Corleone sem margir þekkja að nafni. Þótt bærinn sé tengdur mafíusögu er daglegt líf þar rólegt og friðsælt með sál, karakter og fegurð. Eftir hádegi höldum við til Palazzo Adriano, þar sem kvikmyndin Cinema Paradiso var tekin upp. Þar tekur Anna við okkur og býður upp á heimilislegan léttan hádegisverð fyrir utan litla bakaríið sitt – upplifun sem færir okkur nær lífsstíl og persónulegum töfrum eyjarsamfélagsins og tíminn virðist hafa staðið í stað.
Að kvöldi komum við til Agrigento, þar sem við dveljum eina nótt á Dioscuri Bay Palace 4* hóteli með glæsilegu sjávarútsýni og sundlaug, stutt frá einu best geymda leyndarmáli Ítalíu, Dal hofanna (Valle dei Templi), þar sem forn musteri lýsast upp í kvöldsólinni.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Agrigento – Valle dei Tempoi & Piazza Armerina
Við byrjum daginn í Valle dei Templi, musterisdalnum í Agrigento, einu fegursta fornleifasvæði Evrópu og göngum um þetta mikilfenglega svæði ásamt leiðsögumanni. Eftir hádegi förum við til Piazza Armerina, þar sem við skoðum Villa Romana del Casale og heillumst af glæsilegum rómverskum mósaíkum og borðum saman hádegisverð.
Að loknum hádegisverði liggur leiðin svo til Siracusa, þar sem við gistum á einu glæsilegasta hóteli eyjarinnar, Ortea Palace Hotel, Autograph Collection 5*. Húsið sjálft var upphaflega reist á fyrri hluta 20. aldar sem aðal pósthús borgarinnar (Palazzo delle Poste) og er einstakt dæmi um stórbrotinn ítalskan nýklassískan stíl. Gestir geta notið heilsulindar með tyrknesku baði, innisundlaugar og fyrsta flokks veitingastaðar. Hótelið er í stuttri göngufjarlægð frá dómkirkjunni, Arethusa-lindinni og hinum sögulegu strætum Ortygia.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður.
Frjáls dagur í Siracusa
Siracusa er ein söguríkasta og mest heillandi borg Sikileyjar þar sem forn menning og nútímaleg lífsgleði fléttast saman á einstakan hátt. Hjarta borgarinnar er Ortygia-eyjan, þar sem þröngar götur, hvítir steinveggir og ilmur af sjó og sítrónum skapa töfrandi andrúmsloft. Hér má ganga um litlu handverksbúðirnar, njóta kaffis á torgi og fylgjast með lífinu liðast hægt áfram undir ítalskri sól. Gestir geta heimsótt dómkirkjuna á Piazza del Duomo sem var reist á grískum hofgrunni og endurbyggð í barokkstíl. Á morgnana er upplagt að heimsækja Ortygia-markaðinn þar sem heimamenn versla fisk, krydd og fersk hráefni og gestir geta upplifað lífið við sjóinn.
Á kvöldin vaknar eyjan til lífsins með ljóskerjum, tónlist og ljúffengum mat og gestir eiga ekki í vandræðum með að finna sér veitingastað í þessum líflega litla bæ. Áður en gestir ganga út í kvöldið verður boðið upp á fordrykk á hótelinu og þeir sem vilja geta eftir það kannað bæinn eða notið matar og drykkjar á hótelinu á góðum veitingastað hótelsins á efstu hæð með útsýni yfir höfnina.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður. Einnig er innifalinn fordrykkur á hótelinu.
Barokkborgirnar Noto, Modica & Ragusa
Nú kveðjum við Siracusa og höldum af stað suður með ströndinni þar sem finna má sannar perlur Sikileyjar, borgirnar Noto, Modica og Ragusa sem allar prýða heimsminjaskrá UNESCO og teljast til helstu meistaraverka barokktímans. Við byrjum daginn í Noto, einni glæsilegustu barokkborg Sikileyjar. Næst höldum við til Modica, sem er þekkt fyrir hið sérstaka og aldagamla súkkulaði sem framleitt er eftir aðferðum Azteka og tími gefst til að fá sér hádegismat á eigin vegum og rölta um bæinn. Að lokum heimsækjum við Ragusa Ibla, sögulega og fallegasta hluta Ragusa með sinni áhrifamiklu dómkirkju San Giorgio og útsýnis yfir grænar grundir sem umlykja borgina.
Seinnipartinn ökum við norðurströndina upp til Giardini Naxos þar sem við dveljum síðustu fjórar nætur ferðarinnar á vönduðu strandhóteli Delta Hotels by Marriott 4*. Hótelið hefur nýlega verið tekið í gegn að hluta og sameinar nú klassíska ítalska hlýju og nútímaleg þægindi. Herbergin eru innréttuð í hlýlegum, klassískum ítölskum stíl, öll með svölum og útsýni yfir hafið. Hér er tilvalið að sitja og hlusta á sjávargoluna, njóta friðar og vakna við sólarupprásina sem litast af gullnum tónum frá Miðjarðarhafinu. Á hótelinu er útisundlaug og veitingastaður sem sannarlega er þess virði að njóta kvöldverðar á.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Taormina, Savoca & Forza d’Agrò – á slóðum Guðföðurins
Við tökum daginn snemma og byrjum í fjallabænum Savoca þar sem tíminn virðist hafa staðið í stað og andi Guðföðurins lifir enn. Hér göngum við um þröng stræti, njótum kyrrðarinnar og stoppum við hinn fræga Bar Vitelli, þar sem Michael Corleone bað um hönd Appoloníu – staður sem hefur orðið tákn kvikmyndasögunnar og einlægni ítalsks sveitalífs.
Áfram er haldið til Forza d’Agrò, annars heillandi bæjar þar sem atriði úr The Godfather voru einnig tekin upp, áður en við keyrum upp að í bæinn Taormina sem margir þekkja. Bærinn rís hátt yfir hafið með forna gríska leikhúsið og stórbrotið útsýni yfir Etna og bláa strandlínu austurhluta Sikileyjar. Farið verður inn í gríska leikhúsið sem er eitt tákn bæjarins. Hér gefum við okkur tíma til að njóta, rölta um steinlagðar götur og skoða smábúðir.
Í lok dags eigum við heimboð í lítið hús í hjarta Taormina, Casa Turchetti sem er hluti af sögu og sál borgarinnar. Hús sem stendur rétt ofan við aðaltorgið og er í dag rekið sem lítið og einstaklega notalegt gistiheimili þar sem hvert smáatriði ber með sér sögu staðarins. Af litlum svölum opnast útsýni yfir Miðjarðarhafið og Etna þar sem sjónin minnir fremur á lifandi málverk en raunveruleika enda hefur bærinn löngum hrifið listamenn og rithöfunda. Meðal þeirra sem sóttu hér innblástur var Halldór Laxness sem dvaldi hér um tíma. Farið verður í rútum til baka í lok dags en þeir sem óska eftir að njóta kvöldsins í bænum geta gert það enda frábært úrval veitingastaða og hægt að taka leigubíll til baka upp á hótel í lok dags.
Máltíðir innifaldar: Morgunverður.
Etna Nord – eldfjall, vín og náttúru ævintýri
Í dag bíður okkar einstök upplifun þar sem náttúra, fegurð og smekkvísi renna saman í eina ógleymanlega heild. Við ökum með jeppum upp hlíðar Etna, virka eldfjallsins sem gnæfir yfir norðurhluta Sikileyjar, með reyndum fjallaleiðsögumanni sem leiðir okkur í gegnum fjölbreytt landslag og sögur fjallsins. Eftir því sem við hækkum í hæð breytist umhverfið frá grænum vínekrum og kastaníu trjám yfir í svartar hraunbreiður og gufustróka sem minna okkur á þann eldmóð sem býr undir yfirborðinu. Í um 3.000 metra hæð opnast fyrir okkur stórbrotin sýn yfir hafið og sönn tilfinning fyrir mætti náttúrunnar.
Eftir að hafa keyrt um hluta fjallsins, færum við okkur niður hlíðar þess og heimsækjum víngerð sem nýtir sér kraft og næringu úr jarðvegi eldfjallsins. Þar njótum við vínsmökkunar og ríkulegs hádegisverðar þar sem vín og matur endurspeglar anda þessa magnaða svæðis. Kvöldið er frjálst.
Máltíðir innifaldar: Morgun- og hádegisverður ásamt vínsmökkun.
Frjáls dagur við hafið
Eftir viðburðaríka daga geta gestir notið hvíldar, farið á ströndina beint fyrir framan hótelið, notið sundlaugarinnar eða slakaðu á með spa-meðferð á hótelinu. Valfrjálst er að fara aftur til Taormina eða taka síðustu gönguferðina meðfram sjónum í Gardini naxos. Sameiginlegur fordrykkur og léttar veitingar á hótelinu og kvöldið svo frjálst.
Heimferð frá Catania
Flug frá Catania með flugi AZ1710 kl. 10:15 til Rómar og áfram til Íslands með flugi FI 563 kl. 15:45. Lent í Keflavík kl. 18:35.
Við kveðjum Sikiley með fullt af minningum, bragði, litum og lífsorku eyjarinnar.
Fararstjórn, verð, greiðslur, innifalið og bóka ferð


Sigurður K. Kolbeinsson er fararstjóri í þessari ferð. Hann hefur stýrt fjölmörgum hópum á vegum Kolumbus ævintýraferða á síðastliðnum árum.
Honum til aðstoðar verður Hildur Jónsdóttir svæðisstjóri Kolumbus ævintýraferða á Ítalíu. Hildur hefur búið á Ítalíu í mörg ár og hefur góða reynslu í utanumhaldi og skipulagi fyrir hópa á vegum Kolumbus ævintýraferða. Auk þeirra verða erlendir staðarleiðsögumenn á öllum viðkomustöðum.
Verð: 590.000 kr. á mann miðað við gistingu í tveggja manna herbergi.
Aukagjald fyrir gistingu í einstaklingsherbergi er 179.000 kr.
Greiða þarf 100.000 kr. staðfestingargjald pr. farþega við bókun sem innheimt verður í heimabanka.
Eftirstöðvar verða innheimtar 70 dögum fyrir brottför.
Að öðru leyti og um endurgreiðslur gilda ferðaskilmálar Niko Travel Group sem nálgast má á heimasíðu ferðaskrifstofunnar.
• Flug með Icelandair, 1 taska (23 kg) og handfarangur – allir skattar og gjöld innifaldir
• Innanlandsflug frá Róm til Palermo og heimflug frá Catania
• 10 nætur á hóteli með morgunverði
• 2 hádegisverður ásamt vínsmökkun
• 2 fordrykkir
• Götumatar smakk í Palermo
• Súkkulaðismökkun í Modica
• Allar rútuferðir samkvæmt dagskrá
• Íslensk fararstjórn ásamt staðarleiðsögumanni á ensku
• Leiðsögn og aðgangseyrir samkvæmt dagskrá
• Jeppaferð á Etna ásamt vínsmökkun
Hótelin
Palermo, 3 nætur: Hotel Palazzo Liberty ★★★★
Agrigento, 1 nótt: Dioscury Bay Palace ★★★★
Syracuse, 2 nætur: Ortea Palace Hotel, Autograph Collection ★★★★★
Giardini Naxos, 4 nætur: Delta Hotel Marriott ★★★★
Brottför
Umsagnir viðskiptavina okkar







































































































