Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Flórens.

Þegar litið er á kort af Ítalíu minnir landið gjarnan á stígvél. Efst uppi, eða lengst í norðri, eru Alparnir og lengst niðri, eða lengst í suðri, er Sikiley eins og táin á stígvélinu en Apulia hællinn. Gegnum allt „stígvélið“ teygja sig síðan Appennínafjöll og tengja saman landið. Við fót Appennínafjallanna í norðri liggur hin yndislega borg Flórens.
Flórens er ein þekktasta borg Ítalíu, þó hún sé í raun smáborg á ítalskan mælikvarða. Þar búa ekki nema um 380.000 manns eða álíka margir og Íslendingar. En samt er þessi litla borg höfuðborg lista og menningar í Evrópu og þó víðar væri leitað. Um leið er Flórens höfuðborg Toskana héraðs, sem af mörgum er talið eitt fallegasta hérað Ítalíu. Þar verð ég samt að fá að setja smá varnagla. Ég get nefnilega ekki valið eitt hérað Ítalíu framar öðrum. Öll eru þau einstök og sérstök með einstakt og sérstakt náttúrufar, sögu menningu og mannlíf. En óumdeilt er að Toskana hérað er í forystu hvað varðar matargerð og vín og er auðvitað alger perla á allan hátt.

Flórens er sem sagt höfuðborg Toskana en var eitt sinn í skamma stund höfuðborg Ítalíu eftir sameiningu landsins og á miðöldum var Flórens ríkasta borg Evrópu um tíma og vagga sjálfrar endurreisnarinnar.

Flórens er fyrst nefnd kringum árið 59 fyrir Krist í bókum rómverska hersins og þá undir hinu latneska nafni Florentina. Þá var svæðinu sem borgin stendur á skipt milli hermanna á eftirlaunum í rómverska hernum. Landið þótti frábært því moldin þar er svo frjósöm. Af því það voru fyrrverandi rómverskir hermenn sem lögðu drög að borgarskipulaginu var borgin hönnuð eins og rómverskar herbúðir með beinum götum og torgum í miðjunni þarf sem göturnar komu saman. Þetta sést vel á korti af borginni enn í dag.

Enda miðborg Flórens verið á heimsminjaskrá Unesco frá árinu 1982. Flórens varð sjálfstætt borgríki kringum árið 1000 og þá var það aðallinn sem tók þar völdin. Ein ríkasta og áhrifamesta aðalsættin sem ríkti í Flórens var Medici ættin. Hún stofnaði meðal annars Uffizi safnið. Fyrst var safnið aðeins geymsla fyrir ómetanleg listaverk sem ættin safnaði að sér. En árið 1756 opnaði það fyrir almenning. Safnið er enn í dag eitt stærsta og þekktasta listasafn veraldar. Þar er meðal annars að finna verka eftir Botticelli, Rafael, Michelangelo og Da Vinci, sem allt voru heimamenn í Flórens. Verk þeirra er líka að finna á öðrum söfnum borgarinnar. Þeirra frægust eru án efa Fæðing Venusar eftir Botticelli og Davíð eftir Michelangelo sem finna má á Accademia safninu.

Vagga endurreisnarinnar

Á tímum Medici ættarinnar varð borgin svo rík að hún sló sína eigin mynt sem kallaðist Florinur. Myntin vóg 3,53 grömm og var úr skíra gulli. Það er því ekki undarlegt að borgin hefir orðið svið mikilla átaka í gegnum aldirnar.

En frægust er borgin fyrir að vera vagga endurreisnarinnar svokölluðu. Í stuttu máli var endurreisnin tímabil algerlega nýrrar hugsunar í listum, menningu og trú þar sem einnig var leitað aftur til hinnar klassísku listar Rómar og Grikklands. Hófst endurreisnin um árið 1500 í Evrópu þegar hinir miklu listamenn sem hér að ofan voru nefndir störfuðu í Flórens. Þaðan komu einnig vísindamenn eins og Galileo Galilei og skáld eins og Dante sem uppi var nokkru fyrr eða um 1300. Flórens er kaþólsk borg eins og aðrar borgir Ítalíu. Þaðan hafa komið fjórir páfar sem er merkilegt ef tekið er tillit til stærðar borgarinnar.

Ekki má gleyma því að borgin Flórens er í sjálfu sér listaverk. Sem dæmi má nefna Ponte Vecchio brúnna, hina gullnu brú Flórens sem liggur yfir fljótið Arnos er rennur í gegnum borgina.

Brúin er þakin frægum byggingum sem virðast næstum vera að velta út í fljótið. Talið er að brúin hafi verið reist um árið 1000. Dómkirkja Flórens heitir Cattedrale di Santa Maria Fiore en er ef til vill betur þekkt undir heitinu Duomo. Kirkjan var vígð árið 1436 en hornsteinninn var lagður 1296. Hún er ein stærsta kirkja veraldar, 153 metra löng og 90 metra breið. Kirkjan er hlaðin verkum listamanna. Yfir kirkjunni gnæfir hvelfing þaðan sem er stórkostlegt útsýni yfir borgina. Enginn sem þangað kemur má missa af því að klífa hinar 463 tröppur upp á toppinn. Það er sannarlega erfiðisins virði.

Undir sjálfri kirkjunni er síðan hægt að kanna rústir hinnar fornu kirkju Santa Repata sem grafin var upp árið 1973. Á torginu fyrir framan kirkjuna er skírnarkapella heilags Jóhannesar frá árinu 1059 skreytt ótrúlegum listaverkum.

Flórens er mekka verslunar. Þar er að finna miðbæjarmarkaðinn sem frá fornu fari býður upp á allt sem hugurinn girnist. Að fara í Gucci safnið í Palazzo della Mercanzia er líka skylduheimsókn fyrir áhugafólk um tísku og tískustrauma. Og svo eru veitingahúsin og kaffihúsin óteljandi af öllum stærðum og gerðum í miðborginni og meðfram fljótinu forna.

Enn í dag er Flórens höfuðborg lista og menningar Ítalíu og Evrópu. Borgin hefur aldrei verið stór en alltaf í forystu, gegnum allar miðaldir og til nútímans. Stærðin skiptir því greinilega ekki öllu. Heldur krafturinn í menningunni, vilji borgarbúa og sköpunarkraftur og arfleifðin. Við Íslendingar mættum hafa það okkur til fyrirmyndar.

Ekki satt?

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.