Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Istanbúl.

Það eru fáar borgir eins og Ístanbúl. Hún er perlan sem tengir saman Svartahaf og Miðjarðarhaf, austur og vestur, Asíu og Evrópu, Íslam og Kristindóm, en einnig fortíð, nútíð og framtíð. Hún er eins og púlsmælir, mælir púlsinn í framvindu sögunnar. Um leið er hún eins og regnboginn, litadýrð þar sem öllu ægir saman.
Ístanbúl er fjölmennasta borg Tyrklands, og miðstöð menningar og fjármála landsins. Borgin liggur beggja vegna Bosporussunds, sem tengir Svartahaf og Marmarahaf, svo borgin er í raun eins og brú milli Asíu og Evrópu, bæði hvað varðar landafræði og menningu. Áætlað er að á milli 12 og 19 milljónir búi í borginni, sem þýðir að þetta er ein stærsta borg Evrópu. Í borginni er mikill fjöldi sögulegra bygginga, spennandi listasafna og annarra safna, og ekki má gleyma öllum fornminjunum og verslunarmiðstöðvunum. Í Ístanbúl er fjöldi verslunarmiðstöðva, sumar þeirra gamlar og sögufrægar, en aðrar nýtískulegar. “Basarinn mikli” sem hefur starfað frá árinu 1461, er einn elsti og stærsti yfirbyggði markaður veraldar.
Grand Bazaar

Markaðurinn Mahmutpasha basar er undir berum himni, og nær frá Basarnum mikla að Egypska basarnum, sem hefur verið stærsti kryddmarkaður Istanbúl frá árinu 1660. Þannig mætti lengi telja. Basar þýðir markaður. Fyrst og fremst er Ístanbúl spegill sögunnar. Hún ber í raun sögu þriggja borga sem hverfast í eina. Fyrst mætum við henna sem hinni fornu grísku borg Býsantíum á öldunum fyrir tímatal okkar, sem seinn varð rómversk. Síðan sem rómversk borg varð hún að höfuðborg rómverska heimsveldisins þegar Konstantínus mikli keisari flutti miðstöð veldisins frá Róm í byrjun fjórðu aldar. Þá fékk hún nafnið Konstantínópel. Eða hin önnur Róm.

Taksim Beyoglu

Árið 410 féll Rómarborg í hendur villimanna og vestur hluti rómverska ríkisins hætti að vera til. Þá varð Konstantínópel höfuðborg Aust-Rómverska ríkisins eða Býssntíum. Sem slík varði hún Evrópu fyrir innrásarþjóðum allt til ársins 1453 og keypti evrópskri menningu tíma til að vaxa og styrkjast. Um leið varð hún höfuðborg grísku kirkjunnar og grískrar menningar. Þar stendur ein elsta kirkja heims, Ægissif, eins og norrænir menn kölluðu hana, reist árið 537, ólýsanlegt listaverk. Og þar dvelur patríarki grísku kirkjunnar, eða helsti leiðtogi hennar.

Basilica Cistern

Árið 1453 féll borgin í hendur Tyrkja undir stjórn Mehmed sigurvegara, eða Ottómana. Hún fékk þá núverandi nafn, Ístanbúl, sem er dregið af grísku, “eis ten polin”. Það merkir “Þeir eru komnir inn í borgina” og var neyðarópið sem Tyrkjaher heyrði þegar múrar borgarinnar féllu. Sem Ístanbúl varð hún höfuðborg Tyrkjaveldis til ársins 1922 þegar Kalífatið var afnumið. En þó Ankara hafi verið höfuðborg Tyrklands síðan, þá liggja í dag allar leiðir til Ístanbúl. Sem á ný tengir saman álfur og sögu og trúarbrögð og menningu.

Þannig er þessi magnaða borg. Þrjár borgir í einni. Þrenn menningarsvæði í mat og drykk og byggingarlist og trúarbrögðum. Ekki skrítið að norrænir menn gæfu henni nafnið Mikligarður.

Það er hún. – Hin mikla borg við sundið.

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.