Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Korsíku.

Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, að henda tölu á allar eyjar Miðjarðarhafsins. Þær eru líka hver og ein eins og einstakur heimur út af fyrir sig og mjög ólíkar eftir því hvort um eystri eða vestri hluta Miðjarðarhafs er að ræða. Ég hef siglt um mest allt Miðjarðarhafið og heimsótt stórar og smáar eyjar þess og er hver ein einstök perla.

Sumar eru sjálfstæð ríki en aðrar hluti af einhverri stærri heild. Flestar hafa skipt um eigendur og þjóðerni ótal sinnum í gegnum söguna og þeirra menning er því einstök og sérstök, þó þær teljist hluti af Spáni, Ítalíu, Frakklandi, Grikkland, Tyrklandi eða einhverju öðru ríki. Þannig er um eyjuna Korsíku. Korsíka er í dag frönsk eyja og fjórða stærsta eyja Miðjarðarhafsins, staðsett fyrir norðan ítölsku eyjuna Sardiníu og sunnan við stórborgina Nice á meginlandinu. Á eynni búa um 360.000 manns þannig að íbúafjöldinn er nálægur Íslandi og stærð eyjarinnar er um 8700 ferkílómetrar. Alveg eins og á Íslandi búa flestir íbúarnir með fram ströndinni.

Ponte Leccia þorpið og Monte Cinto

Því það sem einkennir Korsíku öðru fremur eru annars vegar yndislegar strandlengjur og fallegir bæir með fram þeim og á hinn bóginn hið villta, hrjóstuga og hálenda innland eyjarinnar. Þar sem fáir búa. Hár og mikill fjallgarður teygir sig eftir Korsíku endilangri frá norðri til suðurs. Að hæstu tuttugu tindar eyjarinnar séu meira en 2000 metra háir segir allt sem segja þarf um landslagið. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Monte Cinto og er um 2700 metra hár. Það er hér, í fjalla þorpunum, sem sál Korsíku er að finna. Það getur verið heilmikið mál að komast upp í þorpin í fjöllunum og umferðin er oft hæg um krókótta fjallavegi. En þegar upp í fjöllin er komið er útsýnið stórkostlegt og verðlaunar ferðalanga meira en orð fá lýst. Þvert yfir eyjuna, frá norðvestri til suðausturs liggur þekkt gönguleið sem ber heitið Grande Randonnée 20, eða GR20. Þetta er um 200 kílómetra löng leið sem býður upp á einstaka náttúrufegurð en er um leið krefjandi og ekki nema fyrir vant göngufólk að fara hana alla. Um leið er auðvitað að finna fjöldann allan af styttri gönguleiðum um Korsíku þar sem allir sem hafa ánægju af útivist og hreyfingu geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Santa Giulia

Villt náttúra eyjarinnar hefur skapað sögur og sagnir um hina villtu, sjálfstæðu og stjórnlausu íbúa eyjarinnar. Það er líka rétt, að hér eru menn vanir að sjá um sig sjálfir og líta á fulltrúa meginlandsins með tortryggnum augum. Korsíkubúar hafa oft í gegnum aldirnar barist fyrir eigin sjálfstæði. Í dag eru fáir íbúar sem vilja að eyjan sé algjörlega sjálfstæð. Menn þurfa á Frakklandi að halda en vilja um leið gjarnan fá meiri sjálfstjórn yfir eigin málefnum.

Napoleon Bonaparte

Korsíka á sér langa sögu. Þar ríktu Grikkir til forna en síðan varð hún auðvitað hluti af Rómaveldi í 800 ár, enda nálæg hjarta þess. Eftir fall Rómaveldis um 400 eftir Krist réðu þar ríkjum Vandalir, Gotar og Býsantíumenn þangað til arabar lögðu undir sig eyjuna um árið 700. Eyjan var síðan undir ítalskri stjórn í ein 700 ár og tilheyrði lengst af borginni Pisa og síðan Genúa, en borgirnar voru þá sjálfstæð borgríki. Meira að segja Bretar stýrðu Korsíku um tíma. Um miðja 17. öldina gerðu eyjaskeggjar uppreisn gegn Genúa og börðust til sjálfstæðis. Korsíka var síðan sjálfstæð í nokkra áratugi en árið 1768 lagði franski herinn eyjuna undir hina frönsku krúnu. Síðan hefur Korsíka verið hluti af Frakklandi þó oft hafi óánægja kraumað undir niðri. Þar er í dag að finna æfingastöðvar frönsku útlendinga herdeildarinnar. Ekki er hægt að tala um sögu Korsíku án þess að nefna hennar frægasta son á nafn. Napoleon Bonaparte, síðar keisari Frakklands, fæddist á Korsíku í bænum Ajacci árið 1769. Það var ári eftir að Frakkar tóku eynna, þannig að hann fæddist sem franskur ríkisborgari. Honum þótti alltaf vænt um eyjuna sína og lagði sinni gömlu heimabyggð gjarnan lið.

Filitosa

Korsíkubúar tala sitt eigið tungumál, sem undirstrikar sérstöðu þeirra, og það minnir meira á ítölsku en frönsku. Um leið er auðvitað franskan annað höfuð tungumál eyjaskeggja. Ferðamennska er mikilvæg atvinnugrein á Korsíku, en þrátt fyrir frábæra staðsetningu í miðju Miðjarðarhafinu eru færri ferðamenn þar á ferli en víða. Eyjan er því falin perla. Flestir ferðamenn sem sækja eyjuna heim eru reyndar Frakkar frá meginlandinu. Náttúra Korsíku hefur þannig fengið að vera í friði fyrir átroðningi og víða með fram ströndinni má finna algerlega ósnortið umhverfi. Það hefur aldrei verið staðsettur þungaiðnaður né stórar verksmiðjur á eyjunni sem er auðvitað blessun fyrir umhverfið.

Korsíka
Porto bærinn Genoise og Porto Ota turninn

Já Korsíka hefur verið ítölsk og frönsk lengst af og er blanda af því besta sem Ítalía og Frakkland hafa að bjóða upp á. Það á við hin litlu þorp sem kúra í fjöllunum, tungumálið, byggingarlistina og mannlífið. Síðast en ekki síst er auðvitað maturinn og matarmenningin einstök, frönsk og ítölsk. Fátt er betra en að njóta alls þessa á göngu um fjallabyggðir Korsíku eða við fagra og kyrrláta ströndina, þar sem sólin kyssir ferðalang og blámi himinsins og hafsins renna saman í eitt.

Fátt er betra en að njóta alls þessa á göngu um fjallabyggðir Korsíku eða við fagra og kyrrláta ströndina, þar sem sólin kyssir ferðalang og blámi himinsins og hafsins renna saman í eitt.

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.