
Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Ríó de Janeiro.
Ekki er erfitt að taka undir það sem margir segja, að Ríó de Janeiro sé fallegasti staður á jörðinni. Það er meira að segja til gömul þjóðsaga í Brasilíu sem segir, að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum, en sjöunda daginn hafi hann ekki hvílt sig, eins og segir frá í Biblíunni, heldur hafi hann einbeitt sér allan daginn að því að skapa Ríó. Þess vegna er borgin svona undursamlega falleg.
Ég held ég geti tekið undir þessa skemmtilegu sögu. Allavega heillaðist ég af borginni þegar ég kom þangað í fyrsta sinn og hef verið aðdáandi hennar síðar. Þó auðvitað hafi hún sínar skuggahliðar eins og allar aðrar borgir. Grænar, skógi vaxnar hæðirnar og dásamlegar strendurnar eru ef til vill það fyrsta sem fangar augað þegar maður kemur til borgarinnar. En dulúðugur hrynjandi borgarinnar, heillandi mannlífið, maturinn og tónlistin gera það að verkum að maður gleymir henni aldrei.
Annað þekkt kennileiti borgarinnar er fjallið Sykurtoppurinn. Efst á honum er útsýnispallur í um 400 metra hæð. Útsýnið þaðan er stórkostlegt yfir borgina og ævintýri líkast að fara upp á toppinn í tveimur svifbrautum.
Það voru Portúgalar sem fundu Ríó de Janeiro, 1. janúar árið 1502. Ríó de Janeiro þýðir „Janúarfljótið“ á Portúgölsku. Staðurinn fékk nafn sitt af því að það var einmitt fyrsta janúar sem hann fannst. Portúgalarnir héldu að þeir hefði fundið ós stórfljóts. En þess í stað var það Guanavíkin sem þeir fundu, en víkin líkist mjög fljóti frá hafinu séð. Það voru samt ekki Portúgalar sem settust fyrstir að í Ríó heldur Frakkar. En árið 1560 tóku Portúgalarnir yfir og gerðu borgina að nýlendu sinni. Um 1700 fundust miklar gullnámur í Minas Gerais nærri Ríó. Ríó varð þá útskipunarhöfn fyrir gullið til Evrópu og óx borgin hratt. Árið 1763 varð Ríó höfuðborg portúgölsku nýlendunnar Brasilíu og var áfram höfuðborg eftir sjálfstæðið allt til ársins 1960 þegar Brasilía varð hin nýja höfuðborg. Napóleon frakkakeisari hafði líka mikil áhrif á sögu Ríó. Hann lagði undir sig Portúgal um árið 1800. Konungur Portúgal og hirð hans flúðu þá til Ríó og Rio varð höfuðborg Portúgalska heimsveldisins í ein 10 ár, eða á meðan á Napóleonsstyrjöldunum stóð.
Í dag er opinber tala íbúa Ríó um 6.000.000 en allt að 15.000.000 búa í borginni með úthverfum hennar og í fátækrahverfunum kringum borgina.