Istanbúl – Hin mikla borg við sundið

Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Istanbúl.

Það eru fáar borgir eins og Ístanbúl. Hún er perlan sem tengir saman Svartahaf og Miðjarðarhaf, austur og vestur, Asíu og Evrópu, Íslam og Kristindóm, en einnig fortíð, nútíð og framtíð. Hún er eins og púlsmælir, mælir púlsinn í framvindu sögunnar. Um leið er hún eins og regnboginn, litadýrð þar sem öllu ægir saman.
Ístanbúl er fjölmennasta borg Tyrklands, og miðstöð menningar og fjármála landsins. Borgin liggur beggja vegna Bosporussunds, sem tengir Svartahaf og Marmarahaf, svo borgin er í raun eins og brú milli Asíu og Evrópu, bæði hvað varðar landafræði og menningu. Áætlað er að á milli 12 og 19 milljónir búi í borginni, sem þýðir að þetta er ein stærsta borg Evrópu. Í borginni er mikill fjöldi sögulegra bygginga, spennandi listasafna og annarra safna, og ekki má gleyma öllum fornminjunum og verslunarmiðstöðvunum. Í Ístanbúl er fjöldi verslunarmiðstöðva, sumar þeirra gamlar og sögufrægar, en aðrar nýtískulegar. “Basarinn mikli” sem hefur starfað frá árinu 1461, er einn elsti og stærsti yfirbyggði markaður veraldar.
Grand Bazaar

Markaðurinn Mahmutpasha basar er undir berum himni, og nær frá Basarnum mikla að Egypska basarnum, sem hefur verið stærsti kryddmarkaður Istanbúl frá árinu 1660. Þannig mætti lengi telja. Basar þýðir markaður. Fyrst og fremst er Ístanbúl spegill sögunnar. Hún ber í raun sögu þriggja borga sem hverfast í eina. Fyrst mætum við henna sem hinni fornu grísku borg Býsantíum á öldunum fyrir tímatal okkar, sem seinn varð rómversk. Síðan sem rómversk borg varð hún að höfuðborg rómverska heimsveldisins þegar Konstantínus mikli keisari flutti miðstöð veldisins frá Róm í byrjun fjórðu aldar. Þá fékk hún nafnið Konstantínópel. Eða hin önnur Róm.

Taksim Beyoglu

Árið 410 féll Rómarborg í hendur villimanna og vestur hluti rómverska ríkisins hætti að vera til. Þá varð Konstantínópel höfuðborg Aust-Rómverska ríkisins eða Býssntíum. Sem slík varði hún Evrópu fyrir innrásarþjóðum allt til ársins 1453 og keypti evrópskri menningu tíma til að vaxa og styrkjast. Um leið varð hún höfuðborg grísku kirkjunnar og grískrar menningar. Þar stendur ein elsta kirkja heims, Ægissif, eins og norrænir menn kölluðu hana, reist árið 537, ólýsanlegt listaverk. Og þar dvelur patríarki grísku kirkjunnar, eða helsti leiðtogi hennar.

Basilica Cistern

Árið 1453 féll borgin í hendur Tyrkja undir stjórn Mehmed sigurvegara, eða Ottómana. Hún fékk þá núverandi nafn, Ístanbúl, sem er dregið af grísku, “eis ten polin”. Það merkir “Þeir eru komnir inn í borgina” og var neyðarópið sem Tyrkjaher heyrði þegar múrar borgarinnar féllu. Sem Ístanbúl varð hún höfuðborg Tyrkjaveldis til ársins 1922 þegar Kalífatið var afnumið. En þó Ankara hafi verið höfuðborg Tyrklands síðan, þá liggja í dag allar leiðir til Ístanbúl. Sem á ný tengir saman álfur og sögu og trúarbrögð og menningu.

Þannig er þessi magnaða borg. Þrjár borgir í einni. Þrenn menningarsvæði í mat og drykk og byggingarlist og trúarbrögðum. Ekki skrítið að norrænir menn gæfu henni nafnið Mikligarður.

Það er hún. – Hin mikla borg við sundið.

Korsíka – Eyja Napóleons

Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Korsíku.

Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, að henda tölu á allar eyjar Miðjarðarhafsins. Þær eru líka hver og ein eins og einstakur heimur út af fyrir sig og mjög ólíkar eftir því hvort um eystri eða vestri hluta Miðjarðarhafs er að ræða. Ég hef siglt um mest allt Miðjarðarhafið og heimsótt stórar og smáar eyjar þess og er hver ein einstök perla.

Sumar eru sjálfstæð ríki en aðrar hluti af einhverri stærri heild. Flestar hafa skipt um eigendur og þjóðerni ótal sinnum í gegnum söguna og þeirra menning er því einstök og sérstök, þó þær teljist hluti af Spáni, Ítalíu, Frakklandi, Grikkland, Tyrklandi eða einhverju öðru ríki. Þannig er um eyjuna Korsíku. Korsíka er í dag frönsk eyja og fjórða stærsta eyja Miðjarðarhafsins, staðsett fyrir norðan ítölsku eyjuna Sardiníu og sunnan við stórborgina Nice á meginlandinu. Á eynni búa um 360.000 manns þannig að íbúafjöldinn er nálægur Íslandi og stærð eyjarinnar er um 8700 ferkílómetrar. Alveg eins og á Íslandi búa flestir íbúarnir með fram ströndinni.

Ponte Leccia þorpið og Monte Cinto

Því það sem einkennir Korsíku öðru fremur eru annars vegar yndislegar strandlengjur og fallegir bæir með fram þeim og á hinn bóginn hið villta, hrjóstuga og hálenda innland eyjarinnar. Þar sem fáir búa. Hár og mikill fjallgarður teygir sig eftir Korsíku endilangri frá norðri til suðurs. Að hæstu tuttugu tindar eyjarinnar séu meira en 2000 metra háir segir allt sem segja þarf um landslagið. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Monte Cinto og er um 2700 metra hár. Það er hér, í fjalla þorpunum, sem sál Korsíku er að finna. Það getur verið heilmikið mál að komast upp í þorpin í fjöllunum og umferðin er oft hæg um krókótta fjallavegi. En þegar upp í fjöllin er komið er útsýnið stórkostlegt og verðlaunar ferðalanga meira en orð fá lýst. Þvert yfir eyjuna, frá norðvestri til suðausturs liggur þekkt gönguleið sem ber heitið Grande Randonnée 20, eða GR20. Þetta er um 200 kílómetra löng leið sem býður upp á einstaka náttúrufegurð en er um leið krefjandi og ekki nema fyrir vant göngufólk að fara hana alla. Um leið er auðvitað að finna fjöldann allan af styttri gönguleiðum um Korsíku þar sem allir sem hafa ánægju af útivist og hreyfingu geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Santa Giulia

Villt náttúra eyjarinnar hefur skapað sögur og sagnir um hina villtu, sjálfstæðu og stjórnlausu íbúa eyjarinnar. Það er líka rétt, að hér eru menn vanir að sjá um sig sjálfir og líta á fulltrúa meginlandsins með tortryggnum augum. Korsíkubúar hafa oft í gegnum aldirnar barist fyrir eigin sjálfstæði. Í dag eru fáir íbúar sem vilja að eyjan sé algjörlega sjálfstæð. Menn þurfa á Frakklandi að halda en vilja um leið gjarnan fá meiri sjálfstjórn yfir eigin málefnum.

Napoleon Bonaparte

Korsíka á sér langa sögu. Þar ríktu Grikkir til forna en síðan varð hún auðvitað hluti af Rómaveldi í 800 ár, enda nálæg hjarta þess. Eftir fall Rómaveldis um 400 eftir Krist réðu þar ríkjum Vandalir, Gotar og Býsantíumenn þangað til arabar lögðu undir sig eyjuna um árið 700. Eyjan var síðan undir ítalskri stjórn í ein 700 ár og tilheyrði lengst af borginni Pisa og síðan Genúa, en borgirnar voru þá sjálfstæð borgríki. Meira að segja Bretar stýrðu Korsíku um tíma. Um miðja 17. öldina gerðu eyjaskeggjar uppreisn gegn Genúa og börðust til sjálfstæðis. Korsíka var síðan sjálfstæð í nokkra áratugi en árið 1768 lagði franski herinn eyjuna undir hina frönsku krúnu. Síðan hefur Korsíka verið hluti af Frakklandi þó oft hafi óánægja kraumað undir niðri. Þar er í dag að finna æfingastöðvar frönsku útlendinga herdeildarinnar. Ekki er hægt að tala um sögu Korsíku án þess að nefna hennar frægasta son á nafn. Napoleon Bonaparte, síðar keisari Frakklands, fæddist á Korsíku í bænum Ajacci árið 1769. Það var ári eftir að Frakkar tóku eynna, þannig að hann fæddist sem franskur ríkisborgari. Honum þótti alltaf vænt um eyjuna sína og lagði sinni gömlu heimabyggð gjarnan lið.

Filitosa

Korsíkubúar tala sitt eigið tungumál, sem undirstrikar sérstöðu þeirra, og það minnir meira á ítölsku en frönsku. Um leið er auðvitað franskan annað höfuð tungumál eyjaskeggja. Ferðamennska er mikilvæg atvinnugrein á Korsíku, en þrátt fyrir frábæra staðsetningu í miðju Miðjarðarhafinu eru færri ferðamenn þar á ferli en víða. Eyjan er því falin perla. Flestir ferðamenn sem sækja eyjuna heim eru reyndar Frakkar frá meginlandinu. Náttúra Korsíku hefur þannig fengið að vera í friði fyrir átroðningi og víða með fram ströndinni má finna algerlega ósnortið umhverfi. Það hefur aldrei verið staðsettur þungaiðnaður né stórar verksmiðjur á eyjunni sem er auðvitað blessun fyrir umhverfið.

Korsíka
Porto bærinn Genoise og Porto Ota turninn

Já Korsíka hefur verið ítölsk og frönsk lengst af og er blanda af því besta sem Ítalía og Frakkland hafa að bjóða upp á. Það á við hin litlu þorp sem kúra í fjöllunum, tungumálið, byggingarlistina og mannlífið. Síðast en ekki síst er auðvitað maturinn og matarmenningin einstök, frönsk og ítölsk. Fátt er betra en að njóta alls þessa á göngu um fjallabyggðir Korsíku eða við fagra og kyrrláta ströndina, þar sem sólin kyssir ferðalang og blámi himinsins og hafsins renna saman í eitt.

Fátt er betra en að njóta alls þessa á göngu um fjallabyggðir Korsíku eða við fagra og kyrrláta ströndina, þar sem sólin kyssir ferðalang og blámi himinsins og hafsins renna saman í eitt.

Rome

Róm – Borgin eilífa

Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Róm.

Allar leiðir liggja til Rómar, segir málshátturinn og það er ekki fjarri lagi. Undanfarin 2700 ár hefur Róm verið áhrifavaldur í sögunni og mótandi í stjórnmálum, trúmálum, listum og hverskonar menningu. Að ekki sé minnst á tískuna. Þess vegna er hún líka kölluð borgin eilífa. 

Til Rómar liggja leiðirnar bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu því áhrif borgarinnar eru ekki nærri alltaf augljós en koma upp á yfirborðið víða þegar betur er að gáð. Um leið er Róm lifandi og yndisleg borg og sá sem einu sinni hefur orðið ástfanginn af henni á ekki auðvelt með að gleyma þeirri ást, hún fylgir honum alla tíð eins og draumur. Á fyrri öldum voru þeir sem höfðu komið til Rómar gjarnan kallaðir Rómarfarar og þótti það mikil heiðursnafnbót. Þegar gengið er um miðborg Rómar koma sérkenni borgarinnar fljótt í ljós. Miðborgin innan fornu borgarmúranna sem enn standa að hluta til er ótrúlega lítil. Breiðstræti eru fá en torgin þess fleiri og litlar götur og krókóttar mynda gatnakerfi sem er hreint völundarhús fyrir þá sem ekki þekkja til.

Rome
Péturskirkjan

Þannig hefur borgin haldið sér frá fornu fari og það er erfitt að ryðja nýjum breiðstrætum braut því undir yfirborðinu leynast alls staðar ómetanlegar fornminjar. Þess áhrifameira er að koma út úr þröngum smágötunum og inn á torgin þar sem hvert listaverkið öðru stórkostlegra setur svip sinn á umhverfið. Á röltinu um miðborgina rekst ferðalangur á Trevi gosbrunninn, Feneyjartorgið þar sem Mussólíni þrumaði yfir fasistum sínum um miðja öldina, Panþeon, Jesúkirkju Jesúíta með sínum ómetanlegur freskum, spænsku tröppurnar og spænska torgið þar sem rómantíkin blómstrar, og margt, margt fleira. Byggingar og minnismerki Rómar eru hvert öðru áhrifameira. Panþeon er til dæmis kirkja sem upphaflega var heiðið hof allra guða en “Panþeon” þýðir einmitt allra Guða. Húsið var byggt á fyrstu öld fyrir Krist og þykir enn jafn stórkostlegt verkfræðiafrek og það var þá. Talið er að allra heilagra og allra sálna messa hafi fyrst verið sungin þar. Þar er að finna elstu bronshurð sögunnar, 2000 ára gamla. Ekki eru torgin í Róm minna spennandi. Mörg þeirra eru byggð á grunni fornra rómverskra torga eða kappreiðavalla og sér ferðalangur gömlu útlínurnar gægjast fram af byggingunum sem standa í kring. En torgin eru líka hrífandi og litríkur heimur þar sem sölumenn falbjóða hverskonar vöru á meðan Rómverjar fá sér espresso eða cappuccino á kaffihúsunum eða skola pasta og pítsum niður með dýrum veigum. Sagt er að fáir kunni þá list betur en Ítalir að njóta kaffihúsasetu.

Rome
Minnisvarði um Victor Emmanuel II

Róm hýsir líka eitt minnsta ríki heims. Vatíkanið eða Páfaríkið, stendur á bökkum Tíberfljótsins í miðri Rómarborg. Þrátt fyrir smæð sína er Vatíkanið andlegur höfuðstaður kaþólsku kirkjunnar. Páfinn er yfirmaður Vatíkansins eins og kaþólsku kirkjunnar og frá fornu fari ber hann titilinn Pontifex Maximus sem er latína og þýðir hinn æðsti brúarsmiður. Í hugum kaþólskra er hann andlegur brúarsmiður sem byggir brú milli Guðs og manna.

Rome
Frans páfi

Vatíkanið samanstendur af Péturskirkjunni og höll páfa, auk safna, stjórnbygginga, garða og íbúðarhúsa þar í kring að ógleymdu Péturstorginu fræga sem listamaðurinn og arkitektinn Bernini hannaði. Péturskirkjan er ein þekktasta kirkja kristninnar. Í Vatíkan safninu er að finna Sixtínsku kapelluna, sem er einkakapella páfa og hefur að geyma hinar frægu freskur Michelangelos af sköpun heimsins og dómsdegi. Sagt er að ef þú stæðir í eina mínútu við hvern hlut í safninu myndi það taka þig 12 ár að skoða safnið allt. Fátt jafnast þó á við áhrifin af því að standa á Péturstorgi fyrir framan Péturskirkjuna. Þar eru þúsundir samankomnar frá öllum heiminum, pílagrímar á leið að gröf Jóhannesar Páls páfa, forvitnir túristar, prestar og nunnur og munkar, að ógleymdum leigubílunum, svissnesku varðmönnunum, leiðsögumönnunum sem tala hver í kapp við annan, börnum, hestum og margskonar listamönnum. Péturskirkjan er reist á þeim stað þar sem talið er að Pétur postuli hafi verið jarðsettur, en hann lét að öllum líkindum lífið í ofsóknum sem Neró keisari í Róm stóð fyrir gegn kristnum mönnum þar í borg árið 67. Óteljandi listamenn komu að gerð kirkjunnar en þar bera Bramante, Rafael, Michelangelo og Bernini höfuð og herðar yfir aðra. Sjálft Péturstorgið fyrir framan kirkjuna með súlnaröðunum og hinum egypska obelix frá því fyrir fæðingu Krists, á að tákna faðm kirkjunnar sem nær yfir borgina og allan heiminn, Urbi et Orbi, heim og borg eins og það heitir á latínu.

Rome
Torgið fyrir framan Péturskirkjuna í Páfagarði

Samkvæmt fornri hefð var Róm grundvölluð árið 732 fyrir Krist af bræðrunum Rómulusi og Remusi. Þeir eru ef til vill einna þekktastir fyrir að hafa alist upp á kraftmikilli mjólk úlfynju sem gekk þeim í móðurstað. Borgin var upphaflega reist á sjö hæðum og merkust þeirra er Kapítólhæðin við torgið mikla, Forum Romanum. Önnur mikil hæð stendur við torgið, Paletinusarhæðin, þar sem keisararnir byggðu risavaxna keisarahöllina. Rómaveldi stóð í ein 2700 ár, ef talið er með austrómverska ríkið sem fyrst féll árið 1453 þegar Tyrkir tóku Konstantínópel við Bosporussund og breyttu henni í Istanbúl. Forfeður okkar dáðust að þessari borg, kölluðu hana Miklagarð og réðu sig í þjónustu keisara hennar sem Væringjar, eða málaliðar. Á Forum Romanum eða Rómartorgunum má finna andardrátt þessarar miklu sögu. Þar er musteri Júlíusar Sesars sem reist var til að minnast þess er hann var stunginn til bana árið 44 fyrir Krist. Enn leggja menn blómsveig á staðinn í virðingarskyni við hann. 

Rome

Við torgið er einnig musteri Antóníusar, Rómulusar, Satúrnusar og fleiri guða og goðlegra manna, en áhrifamestur eru sigurbogarnir sem reistir voru í minningu sigra herstjóra og keisara Rómverja. Þeirra merkilegastur er án efa sigurbogi Títiusar þar sem sagt er frá því þegar Rómverjar eyddu Jerúsalem árið 70 eftir Krist. Það var Domitian keisari sem lét reisa hann í minningu föður síns Vespasíanusar sem sigraði Jerúsalem ásamt Títusi syni sínum. Á sigurboganum er lágmynd af herfanginu sem borið var út úr brennandi Jerúsalems musterinu. Þar má sjá sjö arma ljósastjakann sem stóð í musterinu og var úr skíra gulli. Ef þessi mynd væri ekki til staðar myndi enginn vita hvernig hann leit út. En þarna er ljóslifandi samtímaheimild komin, 1930 ára gömul. Ekki er áhrifaminni höll keisaranna á Paletínhæðinni eða útsýnið þaðan yfir Cirkus Maximus, risavaxinn skeiðvöllinn fyrir framan hallarhverfið sem margir þekkja úr bókunum um Ástrík og ævintýri hans. Frá torgunum liggur vegurinn eftir Via Sacra, helgigötunni, niður að Kólóseum, hringleikahúsinu sem er eitt frægasta tákn Rómar. 

Kólóseum

Ég hef komið oft gegnum tíðina sem leiðsögumaður til Rómar með Íslendinga. Ógleymanlegasta ferðin var þegar ég fékk að heimsækja borg hinna dauðu undir Péturskirkjunni. Við sem fórum þar niður í undirdjúpin mættum á tilsettum tíma hjá svissnesku vörðunum við hlið Vatíkanshallargarðsins. Þaðan vorum við leidd að skrifstofu fornleifarannsóknarinnar sem á sér stað undir kirkjunni, þar sem leiðsögumaður tók við okkur og fór með okkur inn í kjallara Péturskirkjunnar. Hófst nú hin mesta ævintýraför. Í einfaldri röð gengum við niður stiga inn í göng sem liggja að fyrstu hæðinni undir kjallara kirkjunnar. Þaðan var síðan gengið æ dýpra niður í undirdjúpin undir Péturskirkjunni, úr einu hólfi í annað sem afmarkað var með skotheldum glerhurðum. Í hvert sinn sem gengið var á milli hólfa runnu glerhurðirnar til hliðar og höfðum við eina mínútu til að skjótast í gegn áður en þær lokuðust á ný. Þarna tók við ótrúlegur heimur.

Rome
Santa Maria í Ara Coeli

Fornleifafræðingar hafa opinberað heila borg grafhýsa frá fyrstu annarri og þriðju öld eftir Krist undir Péturskirkju. Þarna í undirdjúpunum gengum við um götur þessarar borgar og sáum hvernig fólk á fyrri tíð hafði útbúið grafir forfeðra sinna, meðal annars hafði það lagt tröppur upp á þök yfir grafhýsunum. Þangað fór fólk gjarnan á frídögum með mat og vín, naut hvíldar og drykkjar og hellti síðan víni niður í grafirnar svo hinir látnu gætu tekið þátt í samfélagi fjölskyldurnar. Mikil listaverk, lágmyndir og styttur prýða marga grafreitina. Sumir eru þó aðeins einfaldir legsteinar með minningarorðum um látna ástvini. Og listaverkin eru bæði frá kristnum tíma og tímanum fyrir kristni. Þar má sjá egypsku guðina Hórus, Ísis og Ósíris í bland við gríska og rómverska guði og kristna dýrlinga. Einn legsteinn fannst mér öðrum hjartnæmari og sýnir hann hversu lítið við mennirnir höfum breyst í gegnum aldirnar og hversu vænt okkur þykir um ástvini okkar. Á steininn, sem var frá annari öld eftir Krist og einfaldur af allri gerð var ritað á latínu:

Treví gosbrunnurinn

„Hér hvílir Flavíus, hann lifði í 36 ár, þrjá mánuði og fjóra daga. Hann var hinn besti bróðir, alltaf spaugsamur og með bros á vör og hann deildi aldrei við nokkurn mann.“

Frá fornu fari hafa menn frá öllum áttum heimsins sótt þessa miklu borg Róm heim. En á slíkum ferðum skiptir auðvitað miklu máli að hafa réttan ferðafélaga með til að finna það sem maður leitar að. Um það segir forn keltneskur málsháttur :

„Að fara til Rómar er mikil fyrirhöfn en skilar litlum árangri ef sá sem þú leitar að býr ekki þegar í hjarta þínu.“

Og túlki það hver sem vill.

Nepal og Bútan

Sr. Þórhallur Heimisson
skrifar um Nepal og Bútan.

Nepal er þak heimsins og teygir sig til himins á milli Kína og Indlands. Hér er að finna Everest og sjö aðra af hæstu fjallstindum jarðarinnar.

Enda sækir landið heim fjallgöngufólk frá öllum heiminum. Himalajafjallgarðurinn teygir sig eftir endilöngum norðurhluta Nepal. Fegurð og margbreytileiki náttúrunnar er óvíða meiri en meðal snæviþakinna tindanna. Um leið er maðurinn lítill þar andspænis hrikaleika jöklanna. Nepal er ekki bara fjöll og snjór og stórfenglegri tindar. Í suðri taka við grónar sléttur þar sem er að finna hrísgrjónaakra, mangotré og þéttvaxinn frumskóg. Í dalverpunum er hitabeltisloftslag. Frá sléttunni og á leið upp á hæstu tinda verða á vegi ferðalangs krókodílar, musteri, snjóhlébarðar og kartöfluakrar. Hæðarmismunurinn frá lægsta punkti landsins og upp á tindana er ótrúlegir 8700 metrar. Og samt er landið aðeins um 120 kílómetra breitt.

Everest

Margbreytileiki náttúrunnar endurspeglast í fjölbreytileika mannlífsins. Í Nepal eru talaðar meira en 40 þjóðtungur. 85% Nepala eru hindúar. Í fjallabyggðum fylgja margir búddismanum í öllum sínu myndum og syðst á sléttunum er að finna múslíma. Íbúar landsins eru um 30.000.000 en 90 % þeirra búa á landsbyggðinni. Flestir búa við frumstæðar aðstæður og rækta hrísgrjón sér til matar. Eins og fólk hefur alltaf gert í Nepal. Norðan Himalajafjallanna er Kína næsti nágranni en í suðri Indland. Nepal hefur í aldanna rás tekist að halda friðinn við þessa voldugu nágranna sína. Og um leið hafa bæði þessi heimsveldi sett mark sitt á menningu Nepal.

Hindúprestar í Nepal

Austur af Nepal er að finna Konungsríkið Bútan. Bútan er afskekkt og einangrað land sem hvílir í faðmi Himalajafjalla eins og Nepal, með stórveldin Indlandi í suðri og Kína í norðri. Um aldaraðir var landið algjörlega einangrað en hefur á síðustu áratugum opnast fyrir utanaðkomandi áhrifum þó að það haldi fast í allar sínar fornu hefðir. Land þrumudrekans, eins og Bútan heitir á heimamálinu, hóf ekki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að hleypa útlendingum inn fyrir landamærin. Fáir fá tækifæri til þess að komast þangað þar sem aðeins um 30.000 manns er veitt heimsóknarleyfi árlega, en í ár mun ég koma þangað með hóp Íslendinga í þriðja sinn.

Konungsríkið gengur í erfðir og hefur Wangchuck-ættin ríkt þar frá 1907. Frá því í mars 2008 er þar þingbundið lýðræði með tveggja flokka ríkisstjórn. Í Bútan búa um 700.000 manns.

Búddalíkneski í Bútan

Bútan er land sem kemur sífellt á óvart. Þar eru hrísgrjónin rauð á lit og chillipipar er ekki aðeins notaður sem krydd heldur sem aðalhráefnið í mat. Í Bútan er búddisminn samofinn lífinu öllu og klaustrin jafn sjálfsagður hluti af lífinu og kjörbúðirnar í úthverfum Reykjavíkur. Eitt er þó öðruvísi og látið ykkur ekki bregða – risastórar reðurmyndir eru málaðar við útidyr margra heimila – sem verndar- og frjósemistákn.

Þó að íbúarnir leggir mikla rækt við trú sína og það skíni alls staðar í gegn ber ekki að líta á Bútan sem lokað samfélag. Heimamenn eru vel að sér, vingjarnlegir, lífsglaðir og einstaklega gestrisnir.

Það er svo margt sem gerir það þess virði að leggja á sig ferðalag til Bútan. Í fyrsta lagi er það landslagið, þar sem snævi þaktir tindar Himalajafjallanna gnæfa yfir dimmum skógi vöxnum dölum og gljúfrum. En landslagið er oftar en ekki aðeins bakgrunnur fyrir stórfengleg musteri og klausturbyggingar sem taka að sér aðalhlutverkið. Hér er búddisminn samofinn öllu, byggingarlistinni, danshátíðunum og lífinu sjálfu. Ekki má gleyma vefnaðarlistinni, handverkinu, svakalegum bogfimikeppnum, háfjallagönguleiðum og undursamlegu dýralífi og gróði.

Aðeins er hægt að fljúga til Bútan með bútanska flugfélaginu Druk air, Drekafluginu. Flogið er til Paro í Bútan. Þegar flogið er frá Nepal er frábært útsýni yfir Everest og önnur hrikaleg fjöll Himalaja.

Markaður í Katmandu

Frá flugvellinum í Paro er haldið til höfuðborgarinnar Timfú sem liggur í 2.300 metra hæð en þaðan liggur leiðin yfir Dochu-la-skarð sem liggur í 3.200 metra hæð, til bæjarins Punakha í miðju landsins. Þegar ég kom þarna fyrst 2016 voru allir vegir malarvegir, en nú er stærsti hluti vegakerfisins sem tengir saman dalina malbikaður. Dochu-la-skarðið er skreytt bænafánum og stúpum sem eru helgistaðir búddista. Í Punakah er fljótið Mo Chhu, eða Móðuráin, sem er beljandi jökulfljót en segja má að öll fljót Bútan séu bæði runnin undan jöklum og beljandi.

Einn þekktasti staður Bútan er án efa Tígrishreiðrið sem er klasi búddamustera í 3.200 metra hæð nærri Paró, í grunninn frá 8. öld. Klaustrin hanga utan í klettinum og til að komast að þeim er gengið hrikalegt einstigi. Í Tígrishreiðrinu kemur vel í ljós samband búddisma og náttúrutrúar en byggingarnar eru engu líkar. Gangan er ekki auðveld upp að Tígrishreiðrinu enda loftið þynnra en við erum vön, en hægt er að komast á hestum hálfa leið upp fjallið.

Bútan er eitt hrikalegasta fjallaland heimsins. Sjálfir segja Bútanir að til að finna landamæri Bútans og Indland kasti Bútanir steini niður fjallshlíðina. Þegar steinninn hættir að rúlla er komið að landamærum Indlands.

Fornt klaustur í úthverfi Katmandu
Normandí

Normandí

Sr. Þórhallur Heimisson skrifar um væntanlega ferð til á slóðir Normandí innrásarinnar.

Þann 6. júní á komandi vori eru liðin 80 ár frá því er Innrásin í Normandí hófst, sem markaði upphafið að endalokum Síðari heimsstyrjaldarinnar.

Af því tilefni mun ég halda til Normandí sem leiðsögumaður á slóðir innrásarinnar í í ágúst næstkomandi. Á 60 ára afmæli innrásarinnar stóð ég fyrir samskonar ferð, reyndar árið 2005, og gaf auk þess út bókina Ragnarök, sem meðal annars sagði frá þessum mikla hildarleik. Líkt og þá verður nú flogið til London en þaðan er ekið til Portsmouth þar sem var ein stærsta flotastöð innrásarflotans sem í júní 1944 hélt yfir Ermasundið. Á leið til Portsmouth er komið við í British War Museum í London. Í Portsmouth er að finna safn breska flotans, Royal Navy Museum, þar sem skoða má herskip af öllum stærðum og gerðum frá ýmsum tímum. Þar liggur meðal annars HMS.Victory Nelsons flotaforingja.

Að því búnu er siglt yfir Ermasundið til Cherbourgh á Normandískaganum sömu leið og innrásarherinn fór árið 1944. Þar verður farið um borð í kafbát franska hersins en síðan ekið sem leið liggur til Bayeux. Bayeux verður einskonar birgðastöð ferðalanga á meðan á dvölinni stendur. Á leiðinni til Bayeux er komið við á Utah strönd þar sem breski herinn gekk á land á D – degi, 6. júní 1944. Dagarnir verða síðan helgaðir innrásarströndunum. Byrjað verður á því að skoða landgöngu bandaríska hersins á Omaha strönd, farið að Point du Hoc þar sem hægt er að fara inn í virki Þjóðverja og að bandaríska herkirkjugarðinum. Mesta mannfall 6. júní 1944 var einmitt á þessum tveimur stöðum. Einnig komum við til Arromanches í hringkvikmyndahúsi þar sem ferðalangar fá að upplifa innrásina í nærmynd. Eftir að hafa sótt heim innrásarstrandirnar er ætlunin að taka hlé frá Síðari heimsstyrjöldinni enda margt að skoða í Normandí. Þá verður ekið að Mont Saint-Michel sem er einstakur staður, eyja, klaustur og kastali sem rísa eins og turn úr Lord of the rings í miðju flæðihafi. Virkið var grundvallað árið 709 og mátti oft þola umsátur og átök. Lengst var barist um kastalann í Hundrað ára stríðinu svokallaða á 14. öld, en þá stóðst hann umsátur í 30 ár. Í frönsku byltingunni var kastalinn og klaustrið gert að fangelsi. Eyjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Líka dag okkar í Normandí byrjum við með því að skoða Beyeux refilinn í Beyeux Tapestry Museum, en hann lýsir innrás Vilhjálms Bastarðs/Sigurvegara á Englandi 1066. Þaðan er síðan ekið til Parísar. Síðustu daga ferðarinnar helgum við París og heimsækjum þar meðal annars Les Invaldises og komum að gröf Napóleons Bónaparte og í safn franska hersins.

Þegar farið var á þessar slóðir á 60 ára afmæli innrásarinnar myndaðist mikil stemmning í hópnum, enda stríðsmynjar ótrúlega vel varðveittar og magnað að koma á þessar örlagaríku slóðir og hófum við ferðalangar mörg haldið kunningskap síðar. Væntanlega verður einnig svo nú á 80 ára afmæli innrásarinnar í Normandí.

Mynd af ferðahóp fyrir 19 árum. Ógleymanlegur hópur og ferð.

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim. Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir, Kolumbus – Siglingar og Ferðaskrifstofu eldri borgara. Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita. 

Niko Travel Group er alhliða ferðaskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar ferðalausnir víða um heim.

Niko Travel Group rekur vörumerkin Kolumbus – Ævintýraferðir og Ferðaskrifstofu eldri borgara auk bókunarþjónustu fyrir Hótel Skt. Petri í Kaupmannahöfn.

Við leggjum áherslu á spennandi áfangastaði sem eftirsóknarvert er að heimsækja og auk þess vel skipulagðar ferðir fyrir eldri borgara. Við þjónustum einnig sérhópa sem til okkar leita.